145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

afnám verðtryggingar o.fl.

[11:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vona að hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir haldi uppteknum hætti og spyrji hér daglega um það hvenær hæstv. forsætisráðherra ætlar að safna kjarki og koma til umræðu um verðtryggingu. Hæstv. forsætisráðherra háði kosningabaráttu á grundvelli tveggja yfirlýsinga, önnur var sú að hann mundi beita sér fyrir því að verðtryggingin yrði afnumin. Hann hefur margítrekað það síðan á þessu kjörtímabili og nánast allir hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa stöðugt verið með þessi loforð á vörunum. Það er eðlilegt að gengið sé eftir því.

Nú langar mig til þess að spyrja hæstv. forseta í veikri von um að hægt sé að greiða fyrir þessum parti þingstarfa, í fyrsta lagi: Getur hæstv. forsætisráðherra skotið sér undan slíkri umræðu? Er það ekki réttur þingmanns að fá að ræða mál af slíkum toga við hæstv. forsætisráðherra? Í öðru lagi: Veit hann nokkur dæmi þess úr þingsögunni að þingmaður hafi þurft að bíða í átta mánuði eftir því að fá slíka umræðu?