145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

afnám verðtryggingar o.fl.

[11:20]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Aðeins varðandi fund fjárlaganefndar á föstudag, á morgun, langar mig að ítreka það sem hér hefur komið fram, að það er bagalegt þegar ekki er samvinna um mál. Mér finnst minni hlutinn fjárlaganefndar vera mjög samvinnuþýður. Við gerðum grein fyrir því um leið og það lá fyrir að hægt væri að boða fund með Isavia á þessum tiltekna föstudegi að við værum að minnsta kosti þrjár sem gætum ekki mætt, allar úr Norðausturkjördæmi. Það var í rauninni ekki mjög flókið að breyta því. Það getur vel verið að við höfum engin vopn í höndum og formaður megi setja dagskrá en það eru líka stjórnir í nefndum og þar ætti þá að minnsta kosti að ræða svona umdeildar dagskrárákvarðanir.

Þetta snýst um að við reynum að vera samvinnuþýð hérna og taka tillit hvert til annars. Það er eiginlega bara það sem við erum að fara fram á hér. Það eru vonbrigði að formaður fjárlaganefndar sitji við sinn keip og ætli að halda þennan fund þrátt fyrir mótmæli okkar.