145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

menning á landsbyggðinni.

[11:48]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur verið rakið hafa í gegnum vinnu með samtökum sveitarfélaga í landshlutunum verið sett skýr svæðisbundin markmið, fyrst í gegnum menningarsamninga og síðan sóknaráætlanir. Á sama tíma finnst mér eins og heildarsýnina vanti. Mig langar þess vegna að spyrja hv. menntamálaráðherra hvort unnið sé að heildarsýn í málaflokknum og heildaráætlun um fjárveitingar ríkisins til menningarmála og vil jafnframt hvetja til þess að slík vinna fari fram.

Í þessari umræðu hefur verið komið inn á margt mikilvægt og akkúrat það að við megum ekki gleyma því að sveitarfélög, jafnt höfuðborgin og sveitarfélög víða um land, standa vel að menningarmálum og leggja fram mótframlög við menningarsamningana auk annars, standa að rekstri menningarmiðstöðva í samvinnu við ríkið og án samstarfs við ríkið, svo mætti lengi telja. Í heildarsýn þyrfti meðal annars að horfa á þetta samspil fjarlægðar og menningar, hvort sem við erum að hugsa um að sækja menningu til höfuðborgar eða innan svæðis eða milli landshluta.

Mig langar aðeins að koma inn á skýrsluna um Starfsemi ríkisins í Norðausturkjördæmi sem kom út árið 2012 og var unnin við Háskólann á Akureyri. Þar kemur skýrt fram að hlutur Norðurlands eystra og Austurlands í framlagi til menningarmála er hlutfallslega lægri en vænta mætti miðað við íbúafjölda. Þar kemur einnig fram að þess er síst að vænta að aðrir strjálbýlir landshlutar standi betur. Skýrslan byggir á tölum frá árinu 2011 og því miður, eins og fram hefur komið hér, hafa krónutölur yfirleitt staðið í stað hvað landsbyggðina varðar síðan þá, en sem betur fer hefur tekist að bæta í til sameiginlegra menningarstofnana.