145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:00]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að standa í því að munnhöggvast við hv. þingmann um það hvort unglingadrykkja muni aukast við aukið aðgengi. Allar rannsóknir sýna að að öllu öðru óbreyttu muni hún aukast. Vísasta leiðin til að ná árangri í að auka unglingadrykkju er að auka aðgengi.

Svo fannst mér áhugaverður punktur sem hv. þingmaður kom inn á, að það skipti ekki máli þó að neysla eldri borgara eða alls almennings mundi aukast um nokkra lítra, það mundi bara engu máli skipta fyrir okkur hin sem greiðum skattana. Er þá ekki með sömu rökum allt í lagi að menn hætti að nota bílbelti og öryggispúða og keyri of hratt, keyri yfir á rauðu ljósi, keyri á röngum vegarhelmingi? Skiptir það engu máli vegna þess að það er bara frelsi fólks til að fara ógætilega?

Ég er að tala um tjón þriðja aðila. Ég er alveg sammála því að fólk er frjálst að því að fara út í áfengisbúð, kaupa sér vín og drekka sér til óbóta, það er frelsi þess, en það er alltaf mannlegur harmleikur þegar fólk fer illa með vín. Það er mannlegur harmleikur þegar það deyr mörgum árum fyrir aldur fram (Forseti hringir.) vegna of mikillar vínneyslu.