145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þá ágætu ræðu sem hann flutti. Hann fór mjög vel yfir þær umsagnir sem bárust þegar þetta mál var tekið fyrir í fyrra. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann, þar sem hann hefur farið mjög gaumgæfilega yfir þessar umsagnir, hvort hann hafi rekist á jákvæðar umsagnir um þetta frumvarp og þá hvaðan þær hafi helst borist. Sjálfur fór ég fljótt yfir þær, en ekki eins gaumgæfilega og hv. þingmaður, og komst í sjálfu sér að svipaðri niðurstöðu og hann, þ.e. að allir þeir sem láta sig lýðheilsu varða eða málefni barna og unglinga vari við samþykki þessa frumvarps. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi tekið eftir því að einhver hafi verið mjög jákvæður í garð frumvarpsins og þá hvaða aðilar helst.