145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er fyrst í þessari umræðu til að nefna hugmynd sem kom upp á seinasta þingi einnig, að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú þykir mér það áhugaverð hugmynd. Mér finnst reyndar að slíkar beiðnir eigi að koma að frumkvæði þjóðarinnar, hvort sem það er með undirskriftasöfnun eða hvernig svo sem það er. Mér finnst svolítið óeðlilegt að ráðamenn ákveði hvað fer í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvað ekki vegna þess að það er einsýnt að stjórnmálamenn geri það þegar ljóst er að þjóðin sé sammála þeim, þeir hafi alla vega hafa tilhneigingu til þess, þannig að það er hægt að misnota það vald mjög auðveldlega.

Hins vegar fór hv. þingmaður í síðara andsvari aðeins inn á aðra hugsanlega lýðræðisaukningu sem er aukin ábyrgð og frelsi sveitarfélaga eða einhverra staða á landinu til að ákveða þessi mál. Ég velti fyrir mér: Sér hv. þingmaður einhverja raunverulega ástæðu til þess að hafa sameiginlega stefnu fyrir allt landið þegar kemur að málaflokknum?