145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta mál æsispennandi og ég hlakkaði mikið til að ræða það hér í dag, sér í lagi eftir reynsluna frá seinasta þingi. Þetta mál er sérstakt að því leyti að hér fara menn ekki mikið í einhverjar flokksstellingar, fólk er bara með sínar eigin skoðanir. Það virðist ekki vera neinn flokksagi sem mér finnst frábært. Mér finnst það til fyrirmyndar. Sömuleiðis hafa margir miklar skoðanir á þessum málaflokki þannig að það er á víxl við hin rökin að þetta skipti engu máli, sem mér finnst ekki alveg standast. Ég tel þetta skipta máli. Ég tel þetta áhugavert. Hér takast á mismunandi grundvallarsjónarmið, t.d. frelsi og lýðheilsa, bæði mikilvæg málefni — „bæði“ undirstrika ég.

Hv. þingmaður kom aðeins í lokin á svari sínu inn á opnunartímann. Einu rökin sem ég hef heyrt gegn því að sveitarfélögin ákveði þetta alfarið sjálf eru þau að við greiðum sameiginlega skatta til lýðheilsumála, þ.e. til heilbrigðiskerfisins. Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmanni finnst um þau rök og sömuleiðis hvort hún þekki einhver önnur.