145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður situr í fjárlaganefnd og til eru mjög margar rannsóknir um áhrif áfengisneyslu og tengsl við ýmis mál. Meðal annars er til bandarísk rannsókn frá árinu 2013 sem fjallar um tengsl áfengisneyslu og hagvaxtar í Bandaríkjunum. Skoðuð eru gögn frá 1971–2007 til að meta það. Í ljós kemur að aukning á áfengisneyslu tengd við minni hagvöxt og minnkun á áfengisneyslu er tengd við aukinn hagvöxt. Síðan kemur reyndar í ljós að hækkun á áfengisskatti eykur hagvöxt. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki ástæðu til að leggjast gegn frumvarpinu þó væri ekki nema bara út frá hagvexti sem er svo mikilvægur fyrir okkur nú um stundir.