145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:14]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hv. andsvarið. Það er nú kannski það sem við sem búum í hinum dreifðu byggðum heyrum ekki. Við fáum ekki spurningar um hvort þetta standi til eða ábendingar um að það sé afar nauðsynlegt að fólk geti keypt sér bjór eða rauðvín með steikinni eða eitthvað slíkt, í almennum verslunum. Það kemur kannski til af því að fólk er vant því að þurfa að gera ráðstafanir og finnst það ekkert mál og ég er alveg sammála því. Það deila örugglega ekki allir þeirri skoðun minni og hv. þingmanns.

Mér finnst miklu meira aðkallandi að velta því fyrir sér í alvörunni hverra hagsmuna er verið að gæta, af því að ég tel ekki að hér sé verið að gæta hagsmuna neytenda, ekki þá nema sumra neytenda sem hafa fyrir gott aðgengi að þessum vörum. Það er ekki verið að hugsa um hagsmuni landsbyggðarfólks. Það er beinlínis sagt hér í frumvarpinu að í 600 manna plássi eigi bara framboð og eftirspurn að ráða. Það þýðir auðvitað mjög skert vöruúrval.

Ég hef líka ofboðslega miklar áhyggjur af því að vöruverð muni að hækka mjög mikið. Mér finnst það liggja í hlutarins eðli því að ÁTVR er ekki með háa álagningu, eins og ég rakti hérna áðan. Ég held að verslanir muni keyra upp verðið. Þær kaupa áfengi inn á lágu verði en munu ekki hugsa sérstaklega um að halda því lágu þegar kemur að flutningskostnaði vestur á firði eða norður í land. Við þurfum aðeins að tylla niður tánum og hugsa út fyrir þetta stórsvæði hér sem mér finnst allt miðast (Forseti hringir.) of mikið við.