145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:12]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek algjörlega undir þetta með hv. þingmanni. Ég er búinn að fylgjast með rekstri ÁTVR í gegnum þó nokkurn tíma og veit að hún hefur mjög öflugt innra eftirlit og mjög öfluga starfsmannastefnu. Hún hefur líka mjög öflugar varnir gegn þjófnaði úr búðunum.

Ég hef haldið því fram að með því að flytja áfengissöluna út í búðir muni vöruverð í landinu hækka. Ég er alveg sannfærður um að rýrnun í þessum vörum muni aukast líka þegar þær fara út í fleiri verslanir. Kostnaðurinn af þeirri rýrnun mundi lenda, alveg eins og herkostnaðurinn af þessum tilflutningi, á almenningi í hærra vöruverði yfir höfuð. Sala áfengis í matvöruverslunum mun alveg klárlega hækka verð á matvörum í landinu. Bara húsnæðið sem fer undir þegar sölustöðum fjölgar kallar á mjög mikinn kostnað.