145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:31]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja. Jú, einhver mundi líklega líta á það sem aukið frelsi að geta farið og keypt bjór hvenær sem er sólarhringsins. Þetta er spurning um ballansinn, viljum við banna áfengi alveg eða viljum við að hægt sé að kaupa það allan sólarhringinn? Ég vil hvorugt. Ég vil vera einhvers staðar þarna á milli. Ég tel að það sé í raun það sem við erum að gera með því fyrirkomulagi sem við höfum, þ.e. að áfengi sé einungis hægt að kaupa í sérstökum búðum sem hafa ákveðinn opnunartíma.

Við þurfum að vega það og meta hvort það sé betra fyrir samfélagið sem heild að hafa aðgengið alltaf eða hafa það aldrei eða sjaldan. Ég er þeim megin línunnar í þessu máli að ég tel að þær takmarkanir sem við höfum núna séu ágætar og virki best fyrir flesta. Ég held nefnilega að drykkjan mundi aukast mikið ef við færum að hafa aðgengið allan sólarhringinn. Ég er ekki viss um að hv. þingmaður sé mér sammála í þessari sýn. Mér heyrist við nálgast málin á talsvert ólíkan hátt. Það er bara allt í lagi. Þá eigum við bara að ræða það hér fyrir opnum tjöldum.

Það sem eftir stendur er að ég tel að það sé í raun stórverslunin sem græðir á því sem hér er kallað frelsi.