145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Nei, virðulegi forseti. Eins og ég nefndi í ræðu minni mundi ég helst vilja að allt áfengisgjaldið færi beinustu leið í lýðheilsusjóð. Ég vona að það svari spurningunni. Hvað varðar þessar frelsis-/sjálfstæðisspurningar þá er munur á lýðheilsumarkmiðum og aðferðunum sem eru notaðar í átt að lýðheilsu. Lýðheilsa er gott og gilt markmið en það réttlætir ekki hvaða aðferðir sem er. Það að auka fjárútlát til heilbrigðiskerfisins er ekki það sama og að banna fólki að gera eitthvað sem það vill gera í sínu lífi. Þetta eru tvær aðferðir að sama markmiðinu en tilgangurinn helgar ekki meðalið.

Þó að menn vilji lýðheilsu þá þýðir það ekki að menn hafi sjálfkrafa ástæðu til að takmarka frelsi fólks þegar það getur þjónað sama tilgangi að auka fjárútlát til heilbrigðiskerfisins eins og meiri hluti almennings vissulega vill.