145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:42]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Vissulega tek ég undir það að það eru tvenns konar sjónarmið í þessari umræðu og í þeim umsögnum sem komu við þetta mál síðast þegar það var hér til umfjöllunar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Það skiptist annars vegar í lýðheilsusjónarmiðin, sem hv. þingmaður kom hér að, og hins vegar viðskiptasjónarmiðin.

Við þurfum í þessari umræðu að vega og meta hvað vegur þyngra, þessi eina breyting hvað varðar opinbera áfengisstefnu og lýðheilsusjónarmið og sá þjóðhagslegi sparnaður sem við getum náð fram með þessari breytingu á fyrirkomulagi eða sú framleiðniaukning sem við getum náð fram í verslunarrekstri; getur hv. þingmaður ekki séð þann þjóðhagslega sparnað og framleiðniaukningu í verslunarrekstri?