145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

ný stefna í ferðamálum.

[14:06]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nýverið kynnti hæstv. ráðherra nýja stefnu í ferðamálum og verð ég að segja að þar er margt mjög gott að finna og góð markmið sett fyrir ferðaþjónustuna til lengri tíma. Menn horfa langt fram í tímann og augljóst að margir hafa komið að gerð stefnunnar og það er ákveðin samfella við það sem gert hefur verið og margt ágætt þar að finna. Það er gott mál.

Hins vegar eru nokkur atriði í kringum þetta sem maður staldrar við. Það er kannski í fyrsta lagi Stjórnstöð ferðamála. Það sem mér finnst við þurfa að fá betri skýringar á er hvar í stjórnkerfinu þessi nýja stjórnstöð eigi að vera staðsett. Við erum með sveltar stofnanir og svelta stoðþjónustu við ferðamálin eins og Ferðamálastofu, við erum með Rannsóknamiðstöð ferðamála, ferðamálaráð og Íslandsstofu. Allir þessir aðilar hafa á undanförnum árum kallað eftir auknum fjármunum og hafa kannski þurft skýrari sýn til lengri tíma. Nú er hún komin en þá er búið til nýtt batterí yfir þetta allt saman. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í þetta vegna þess að þarna eiga greinilega að koma frá ríkinu, miðað við upplýsingar sem koma fram í Kjarnanum, 70 millj. kr.

Í fyrsta lagi: Hvaðan eiga þessir fjármunir að koma? Í öðru lagi langar mig að spyrja: Hvað verður um hinar stofnanirnar? Hvað á að gera við ferðamálaráð? Hvað á að gera við Ferðamálastofu?

Í síðasta lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig datt ráðherranum í hug að gera þessari mikilvægu atvinnugrein það að leggja af stað í þennan leiðangur með því að ráða yfir þetta verkefni, án auglýsingar, aðila fyrir 2 millj. kr. á mánuði? Verra upphaf á leiðangri er ekki hægt að hugsa sér.

Ég verð að spyrja út í þetta, virðulegi forseti, vegna þess að þetta dregur alla athygli frá (Forseti hringir.) hinu efnislega innihaldi málsins sem skiptir svo miklu máli að fylkja liði um.