145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

dýravelferð.

[14:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Dýraníð veldur okkur öllum áhyggjum. Dýralæknir dýravelferðar hjá Matvælastofnun staðfestir illa meðferð dýra í svínaeldi. Við blasa allt of litlar stíur, legusár, geldingar, halaklippingar og yfirveguð brot á bæði lögum og reglugerðum svo okkur blöskrar öllum og við hljótum að spyrja ráðherrann: Hvað ætlar hann að gera til að afnema þetta ástand fljótt og vel dýranna vegna?

Þrennt virðist mér augljóst að gera þurfi strax. Við viljum ekki eiga viðskipti við fólk sem fer illa með dýr (Gripið fram í: Heyr, heyr.) og þess vegna á í fyrsta lagi að upplýsa um það hverjir eiga hér í hlut.

Í öðru lagi á að kæra brot á þessum lögum til lögreglu eins og brot á öðrum lögum.

Í þriðja lagi á enginn sem uppvís verður að illri meðferð á dýrum að fá styrki eða niðurgreiðslur úr ríkissjóði.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort þetta sé ekki algerlega óþolandi ástand sem ekki dugi að hafa með þeim hætti sem það er nú, einu og hálfu ári eftir að úttektin fer fram. Ýmsir hafa sagt að hér hafi færst til betri vegar og þetta séu nýjar reglur. En, hæstv. ráðherra, er það ekki svo að smæð stíanna er þannig að þær uppfylla ekki einu sinni gömlu reglugerðina? Er það ekki þannig að það blasir við hverjum manni að stía sem er undir 50 sentímetrum þrengir óhæfilega að dýrinu? Er það ekki yfirlýst opinberlega að menn hafa vísvitandi brotið gegn lagaákvæðum um halaklippingar, um geldingar og ýmsa aðra þætti sem engin leið er að mæla bót? Sagt er að þetta séu undantekningartilfelli og því trúi ég. Ég trúi því að þetta séu undantekningartilfelli sem því miður kasti rýrð á allt of marga saklausa aðila sem búa vel að dýrum sínum og hlúa vel að þeim. En það að þetta kunni að vera undantekningartilfelli gerir ekki að verkum að taka eigi létt á því heldur þvert á móti tel ég að það gefi sérstakt tilefni til að taka hart og ákveðið á því að brotið sé gegn þessum lögum eins og öðrum lögum. Því miður virðast þetta ekki vera undantekningartilfelli í svínaeldinu miðað við þann fjölda af búum sem tekin voru út á síðasta ári og hversu margt var óviðunandi í þeim átta búum sem þar voru tekin út.

Ég vil líka spyrja ráðherra hvort þau viðmið sem hann setti í reglugerð í ár um kjúklinga og fjölda kjúklinga á fermetra í eldi séu nægilega vilhöll dýrunum, hvort dritsár á kjúklingum séu enn þá til staðar þrátt fyrir þær kröfur sem settar voru í reglugerðinni í ár og hvort eigi að gera meiri kröfur til að tryggja velferð kjúklinganna. Ég hlýt líka að spyrja ráðherrann um þær fréttir sem við sáum í gærkvöldi um það að þrátt fyrir skýr ákvæði laga sé það þannig, a.m.k. á einhverjum kúabúum, að dýrin séu bundin á bás allt árið og hvort hann hafi vitneskju um að þetta sé rétt og hvort hann sömuleiðis í þessu efni hyggist grípa til einhverra ráðstafana strax.

Ég vil líka sérstaklega inna ráðherrann eftir því atriði sem ég nefndi hér síðast um þær aðgerðir sem mér virðast vera augljósar, þ.e. að tengja beint saman dýravelferð og stuðning úr ríkissjóði. Nú er unnið að gerð nýrra búvörusamninga og auðvitað kann það að vera að vegna stjórnsýsluaðgerða og annarra þess háttar hluta sé oft erfitt um sönnunarfærslu í þessu efni. En er ekki eðlilegt að við krefjum um það í samningum um niðurgreiðslu á búvöruframleiðslu að sýnt sé fram á að dýravelferð sé í heiðri höfð hjá þeim sem taka við styrkjum úr ríkissjóði? Er það ekki sjálfsögð og eðlileg viðbót við þá samninga sem við höfum þegar til að tryggja gott aðhald að því leyti með öllum sem starfa í þessum greinum?