145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

lögreglumenn.

[10:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Engum blöðum er um það að fletta að afar brýnt er að við náum samningum við lögreglumenn. Eins og þingheimur þekkir hafa deilur við lögreglumenn staðið yfir um nokkra hríð og þeir eru orðnir óþreyjufullir, eins og margar aðrar stéttir eru svo sem einnig. Undir forræði innanríkisráðuneytisins heyrir að sjálfsögðu löggæslan í landinu og mjög mikilvægt að um hana sé friður, friður sé um starfsumhverfi lögreglumanna og almenna umgjörð löggæslu í landinu. Eins og ég sagði áðan í svari við fyrri fyrirspurn eru náttúrlega ýmis atriði í umgjörð lögregluliðsins sem við getum gert betur í. Við höfum stigið skref í þá átt þótt óþreyjan sé vissulega mikil og hún er svo sannarlega mikil hjá mér einnig. En við verðum auðvitað að spila úr því sem við höfum og reyna að gera það sem best.

Ég er bjartsýn manneskja að eðlisfari og ég vona að sjálfsögðu að samningar náist við löggæsluna og lögreglumenn hið fyrsta, ég er viss um það, og ég veit að af hálfu ríkisins er auðvitað mjög ríkur vilji til þess að slíkir samningar náist.

Ég ætla ekki að tala um það hér að lögreglumenn fari að beita einhverjum úrræðum sem ganga gegn lögum, ég trúi því ekki, ég held að það verði ekki þannig. Löggæslan hefur það grundvallarhlutverk að halda uppi lögum og reglum í landinu. Hún gegnir gríðarlegu hlutverki fyrir öryggi landsins. Ég held að starf lögreglumanna verði samt seint metið að verðleikum. En hér erum við komin upp með mjög alvarlega stöðu í landinu og við í innanríkisráðuneytinu munum að sjálfsögðu gera það sem við getum til að liðka fyrir í málinu, við höfum svo sem rætt það við lögreglumennina, en eins og staðan er núna erum við fyrst og fremst að horfa fram á kjaradeilu. Þá kjaradeilu þarf að leysa eins og aðrar deilur. Til að svo verði þurfa auðvitað báðir að koma að borðinu með (Forseti hringir.) einlægan vilja til niðurstöðu.