145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

málefni fatlaðra.

[11:29]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Ég get tekið undir hans orð og orð annarra hv. þingmanna: Við erum nýkomin heim úr kjördæmaviku þar sem þetta brýna málefni var alls staðar til umræðu.

Mig langar að byrja á því að segja að áður en ég fór að starfa hér á þingi stýrði ég hópi foreldra sem eiga börn á einhverfurófinu og það var einmitt á því tímabili sem tilfærslan á sér stað. Það er alveg óhætt að segja að fólk var hrætt við það sem átti að fara að gerast varðandi tilfærsluna, fólk vissi hvað það hafði en ekki hvað það fengi.

En það er óhætt að segja, alla vega þar sem ég þekki til, að fólk hafi almennt orðið ánægðara með þá þjónustu sem varð til við tilfærsluna. Auk þess starfaði ég sem grunnskólakennari áður en ég hóf störf á þingi og sá þar greinilega að eftir að þjónustan var færð til nærsamfélagsins, til sveitarfélaganna, voru fleiri sem fengu þjónustu en áður. Það er nú oft svo að þegar eitthvað er komið nær okkur þá sjáum við vandamálin betur og sjáum mikilvægi þess að bregðast við.

Mig langar að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort einhverjar breytingar hafi orðið á reglum jöfnunarsjóðs sem hafi jafnvel komið ver út fyrir dreifðari byggðir landsins. Við höfum verið að tala um tilfelli er varða Vestfirði og Norðvesturkjördæmi. Jafnframt tel ég að fólk sé orðið mjög meðvitað um réttindi sín í dag, það veit hverju það á rétt á og það er auðvitað gott mál að vera meðvitaður um það. Fólk er því duglegra að sækja þá þjónustu sem því á að standa til boða.