145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:22]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að gera stutta athugasemd við ummæli hv. þingmanns, sem kallaði eftir umræðu um frelsismál í þessu sambandi og setti mikið út á það að vísað væri til frelsis einstaklingsins, eins og málsvarar þessa frumvarps hafa haldið á lofti að væri í húfi hér. Á það var bent í ræðu hv. þingmanns að fráleitt væri um frelsi einstaklings að ræða heldur viðskiptafrelsi. Við þetta vil ég gera athugasemd. Hvernig er mögulega hægt að skilja á milli viðskiptafrelsis og einstaklingsfrelsis? Nú er það svo að í viðskiptum eigast við tveir aðilar, tveir einstaklingar. Ég vildi gjarnan heyra nánari skýringu á því hvernig hægt er að líta fram hjá frelsi einstaklingsins þegar menn tala um það mikilvæga frelsi (Forseti hringir.) sem viðskiptafrelsi vissulega er, en þó ekki ofar (Forseti hringir.) frelsi einstaklingsins.