145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:41]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég kom að áðan er ákveðinn eðlismunur á því að selja áfengi sérstaklega eða setja það inn í matvörubúðir, því að þar með erum við í huga okkar að setja þessa vöru á sama bás og hefðbundin matvæli. Það held ég að sé eitthvað sem við getum ekki horft fram hjá. Það hefur önnur áhrif á aðgengi fólks að áfengi og gerir það sjálfkrafa meira, enda kemur það fram í greinargerð með frumvarpinu að líklegt er talið að neysla aukist. Þar sem þetta hefur verið gert, þar sem útsölustöðum áfengis hefur verið fjölgað, og ég fór yfir það í ræðu minni, t.d. í Bretlandi þar sem útsölustöðum hefur fjölgað verulega, hefur neysla aukist mjög mikið. Þar er beinlínis talað um áfengisfaraldur.

Ef við tækjum þetta mál í gegn hér og horfðum á það að áfengi færi í allar matvörubúðir þá mundi útsölustöðum áfengis fjölga meira á einu bretti á Íslandi (Forseti hringir.) en á 50 árum í Bretlandi. Hvernig ætlum við að eiga við afleiðingarnar af því, frú forseti?