145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

Tónlistarsafn Íslands.

202. mál
[17:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Mér heyrist að það þyrfti að samræma svolítið þá aðila sem eru í forsvari fyrir því að halda utan um þann menningararf þjóðarinnar sem tónlistin er. Tónlistarsafn Íslands er vissulega í eigu Kópavogsbæjar en hefur verið með styrki frá ríkinu og gegnt veigamiklu hlutverki. En eins og hæstv. ráðherra bendir á þá eru aðrir aðilar, eins og Landsbókasafnið, Þjóðminjasafnið og tónlistarsafn RÚV, sem hafa hlutverki að gegna.

Vítt og breitt um landið hefur verið komið á fót mjög menningarlegum tónlistarsöfnum og arfurinn hefur verið varðveittur, hvort sem er á Siglufirði, í Reykjanesbæ; eða á Bíldudal þar sem ég þekki vel til, Jón Kr. Ólafsson hefur verið þar til fyrirmyndar. Mér finnst að það þurfi að hlúa að þessum arfi og passa að ekkert glatist. (Forseti hringir.) En það er ekki sjálfgefið að áfram sé haldið utan um þessi söfn ef eitthvað breytist hjá þeim sem hafa haldið utan um þau hingað til.