145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Nú þegar kjörtímabilið er hálfnað er mikilvægt að halda því til haga að fyrirheit um þjóðaratkvæðagreiðslu um lúkningu umsóknar Íslands að aðild að Evrópusambandinu hefur ekki gengið eftir. Möguleg aðild að sambandinu, myntbandalaginu, er án efa stærsta og mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar um áratugaskeið. Með því að setja umsóknina á ís frestast um mörg ár að leiða til lykta valkosti landsins í gjaldmiðils- og peningamálum. Áfram verður hlutskipti Íslendinga að vera farþegar í samstarfi Evrópuþjóðanna með aukaaðild í gegnum EES-samninginn og allri þeirri ólýðræðislegu innleiðingu tilskipana sem því fylgir án nokkurra áhrifa og lýðræðislegrar aðkomu að gangi mála og lagasetningu eða möguleika á upptöku evru eða tengingu krónu við evru. Framtíðinni er skotið á frest og fari sem horfir bíður það fram yfir næstu kosningar að taka ákvörðun um að ljúka viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu og fara með samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Framtíðarkostir frestast um mörg ár og stóra málið er enn þá óleyst. Réttast er að láta lýðræðið leiða málið til lykta og full ástæða er til að nota tækifærið hér á Alþingi og skora á þingheim að koma hreyfingu á málið með þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna.

Ítrekað hefur það komið afdráttarlaust fram í skoðanakönnunum að mikill meiri hluti er fyrir því að ljúka aðildarviðræðum og koma fullgerðum samningi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er rangt af Alþingi að taka ráðin af almenningi sem augljóslega vill sjá niðurstöður viðræðnanna og greiða atkvæði um framtíð landsins þegar þær liggja fyrir.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, vakti nýlega athygli á þeim óásættanlega aðstöðumun sem er til staðar milli venjulegs vinnandi fólks og margra fyrirtækja sem gera upp í erlendum myntum og hafa aðgengi að fjármagni á miklu lægri kjörum. Stærsta hagsmunamál íslenskra heimila er aðgengi að sömu býttum, stöðugum (Forseti hringir.) lágum vöxtum án verðtryggingar. Leiðum málið til lykta með beinni aðkomu þjóðarinnar um framhald viðræðnanna.


Efnisorð er vísa í ræðuna