145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[16:22]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Í fyrsta lagi, virðulegi forseti, kemur mesti hryllingurinn sem við sjáum í þessum málum erlendis frá. Þó að við samþykkjum þetta hér mun það ekki breyta neinu um það sem gerist þar. Miðað við umræðuna sem hefur farið fram hér í dag og ef maður skoðar hvernig þessi nefnd á að vinna að því hvernig mætti taka á móti foreldrum sem koma með börn erlendis frá gæti þetta jafnvel orðið til þess að það yrði meira notað en tíðkast í dag. Ég veit ekki um það. Mér datt í hug í umræðunni áðan hvort þá væri ekki rétt að nefndin, sem ég vona að verði aldrei til, mundi skrá niður þau lönd sem fólk mætti ekki leita til.

Þingmaðurinn spyr hvort þá sé betra að hafa lagalega umgjörð um þetta. Nei, vegna þess að með því að setja um þetta lagalega umgjörð erum við að segja: Já, þetta er í lagi. En ég tel bara ekki í lagi að konur geti verið beðnar um það í skjóli laganna, af því að allt er tryggt, af því að allt er öruggt, af því að viðkomandi er búin að fara í gegnum eitthvert ferli og af því að hún er hraust sé allt í lagi að biðja hana um þetta og allt í lagi að hún geri það. Nei, þá er búið að færa til rammann eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir sagði og það megum við ekki gera. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)