145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[17:01]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Mér sýnist að ég sé síðastur á mælendaskrá hér í dag og vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu. Hún hefur verið mjög fróðleg. Það hefur verið mjög gott að sitja hérna og hlusta á fólk sem hefur kannski tekið þátt í þessu áður, hefur fylgst með þessu ferli alveg frá upphafi. Við skulum ekki gleyma því að það var samþykkt á síðasta þingi að fela vinnuhópi og svo ráðherra að koma fram með þetta frumvarp. Ég er eins og fleiri, ég sveiflast í þessu máli til og frá eins og hrísla í vindi og veit ekkert í hvorn fótinn ég á að stíga, ég verð að viðurkenna það. Ég nefndi það áðan að maður hefur heyrt það svona út undan sér að það sé rosalega gott að vera bara einhver dúddi úti í bæ sem þarf ekki að taka afstöðu í svona máli, en það er ekkert í boði lengur, nú verður maður að taka afstöðu eins og í öllum málum eiginlega sem maður fær inn á borð til sín sem þingmaður.

Mér hafa fundist vera færð mjög sterk og góð rök gegn þessu máli í dag og fólk farið ítarlega í það hvað þetta hefur í för með sér, að hér séu undir miklar siðferðilegar og félagslegar spurningar og ég held að það sé alveg rétt, ég held að þetta sé nánast eitt flóknasta mál sem við getum rætt því að það snertir svo ótrúlega mörg sviðum mannlífsins, mannréttindamál og þar fram eftir götunum. Svo veltir maður því líka fyrir sér að þetta hefur viðgengist, fólk hefur gengið með börn fyrir aðra. Ég spurði hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur hvort ekki þyrftu að vera lög utan um þetta. Hún svaraði því mjög afdráttarlaust. Það eru margir sem segja að það geti bara orðið til hins verra, fólk fari þá bara meira til útlanda í þessu skyni og það verði enn þá meira kaos í kringum þessi mál og kannski er ekki á það bætandi. Maður hefur tekið eftir því, samt sem áður, að í þessum málum virðist vera lagalegt tómarúm þannig að fólk hefur ekkert á bak við sig. Í því sambandi er mér minnisstætt viðtalið sem var um daginn í Kastljósi, ég veit ekki hvort það sé hægt að bera það saman við þetta, en ég held samt. Þarna er manneskja sem ákveður að ganga með barn fyrir vini sína og svo loka þeir bara dyrunum á hana og hún er skilin eftir í lagalegu og tilfinningalegu tómarúmi og er brotin og beygð. Það fær mann til að hugsa, jesús minn, af hverju er þetta svona? Svo veltir maður líka fyrir sér eins og síðasti ræðumaður nefndi hvort við ættum ekki að leita allra annarra leiða en þessarar fyrir fólk sem vill eignast barn.

Það hefur líka komið fram að aðrar Norðurlandaþjóðir hafa ekki samþykkt lög um staðgöngumæðrun og eitthvað liggur þar að baki. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór mjög ítarlega í gegnum það hvers vegna það er. Þetta er náttúrlega gríðarlega mikið álitamál. En þetta er leyft víða annars staðar, hér og þar í heiminum, t.d. í Bandaríkjunum hafa fleiri tugir þúsunda barna fæðst svona. Ég hlustaði á fyrirlestur eða hluta af fyrirlestri hjá dr. Elly Teman, sem er ísraelskur prófessor og doktor í mannfræði að ég held, þar sem hún nefndi að árið 2011 voru búnar að vera 25 þúsund staðgöngumæðranir. Það voru ekki nema 14 tilvik af 25 þúsund þar sem voru vandræði, álitamál eða dómsmál. Það er ekki stórt hlutfall ef maður fer að velta því fyrir sér.

Eins og ég segi þá sveiflast ég rosalega í þessu máli og hef ekki myndað mér skoðun á því þótt ég hafi hallast aðeins meira í þá átt að vera á móti þessu eftir að hafa hlustað á umræðuna í dag, því að það hafa komið fram mjög sterk rök fram fyrir því. Þetta er náttúrlega mikið tilfinningamál og ég velti fyrir mér hvort við séum að fara of bratt í þessu, hvort við séum að flýta okkur of mikið, vegna þess að þetta er háalvarlegt mál. Ég nefndi áðan þetta dæmi frá Bandaríkjunum en ég velti fyrir mér hvort það séu til einhverjar rannsóknir eða gögn sem geta sagt okkur hvernig hefur tekist í þessum málum þar sem þetta er leyft. Það eru svo ótrúlega margar spurningar sem vakna. Nú er ég ekki búinn að lúslesa þetta frumvarp, ég er búinn að fara yfir það svolítið hratt og það er stórt og viðamikið. Ég bind miklar vonir við að það fái mjög ítarlega og góða umræðu í velferðarnefnd þar sem kallaðir verði til allir þeir gestir sem virkilega geta varpað ljósi á þessi mál. Ég mun leggja mitt af mörkum til að reyna að finna út úr því og mynda mér skoðun. Þetta er þvert á alla flokka, menn með og á móti. Þetta er bara eitt af þessum málum þar sem menn skiptast í tvö horn.

Ég hef verið að leita mér að efni um þetta og maður rekst á spurningar eins og hvort konan sem gengur með megi fara í fóstureyðingu. Má hún borða hvað sem hún vill? Má hún drekka? Má hún stunda grimma líkamsrækt? Nú hefur komið fram í máli þingmanna og kemur fram í frumvarpinu að hún verður að vera hraust, verður að vera í góðu formi og verður að uppfylla viss skilyrði. En hvað með þetta? Mega tilvonandi foreldrar t.d. banna henni að reykja og drekka áfengi? Það eru engin lög eða neitt sem halda utan um þetta. Það vakna margar spurningar. Hér kom líka fram spurning um það ef barnið er með erfðagalla og fæðist með erfðagalla og hvorugir vilja eiga barnið, hvað tekur við þá? Hvað verður um barnið ef foreldrarnir sem eiga að fá barnið og staðgöngumóðirin vilja ekki eiga það? Þessari spurningu var varpað fram hér í dag, henni var reyndar ekki svarað, en þetta er stór og mikil spurning.

Ég bind miklar vonir við starfið í nefndinni, nú fer málið til nefndar og ég vona svo sannarlega að við náum að ræða það á málefnalegum nótum. Það voru gefin skýr skilaboð til hæstv. heilbrigðisráðherra að vinna þetta mál og koma með frumvarp til þingsins sem hann hefur og gert og við verðum bara að sinna óskum þingsins um að gera þetta. Ég held að þetta sé mál sem þarf að leiða til lykta. Hér hafa náttúrlega verið fluttar mjög tilfinningaríkar ræður sem hreyfa mjög við manni. Þetta er mjög stórt og mikilvægt mál sem við verðum að leiða til lykta.

Ég kalla eftir því að allar upplýsingar verði lagðar fram um það hvernig hefur þetta gengið annars staðar. Hafa einhverjar staðgöngumæður tekið upp á því að fara í fóstureyðingu til dæmis? Hafa þær leyfi til þess? Hver er þá réttur foreldranna? Hverjir taka við? Það hlýtur að vera gríðarlegt andlegt áfall fyrir tilvonandi foreldra sem hafa kannski gert samning um að vera með staðgöngumóður og hún ákveður svo að eyða fóstrinu. Ég mundi ekki vilja vera í þeim sporum vegna þess að eins og við vitum þá er það stærsta stund í lífi allra að eignast barn, held ég, og það þrá allir. Við þurfum líka að hafa í huga að við höfum ýmsar leiðir til þess. Hér hafa verið nefndar ýmsar leiðir sem hægt er að fara til að eignast barn og það er spurning hvort við ættum ekki að leita allra annarra leiða áður en við förum út í þetta og finna út úr því hvernig við getum gert fólki kleift að eignast börn því að það er svo ofboðslega stór hluti af lífinu og kannski því að vera manneskja. Svo er líka spurt: Eru það endilega mannréttindi að eignast barn? Eru það sjálfsögð mannréttindi? Ég veit það ekki. Ég get ekki svarað þeirri spurningu.

En segi enn og aftur að ég vona svo sannarlega að við komum til með að eiga mjög góða umræðu um þetta, það verði farið mjög djúpt og vandlega í málið í velferðarnefnd og við fáum marga gesti þannig að við getum komist að niðurstöðu og kannski sátt. Það er talað um það hér á bls. 19 að það þurfi að ná almennri samfélagslegri sátt um þetta mál. Ég er ekki viss um að sú sátt sé til í samfélaginu. En kannski leiðir þessi vinna okkar sem fram undan er og niðurstaða málsins til þess að fólk geti verið sátt um þetta frumvarp og staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.