145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[16:10]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég treysti því að hv. þm. Karl Garðarsson sjái til þess að formaður hans og hæstv. forsætisráðherra komi hér til þessarar umræðu þar sem hann sagði að við gætum alveg átt von á því að ræða þessi mál, það væri nægur tími. Ég er ekki viss um að fólkið á bak við heimilin í landinu sem þingmönnum Framsóknarflokksins hefur orðið tíðrætt um hafi átt von á því að þurfa að bíða þar til kjörtímabilið væri hálfnað eða lengur. Eins og hér kom fram áðan þá sat fólk fundi þar sem sagt var að þetta yrði gert bara sisvona og þyrfti ekki langan tíma.

Það eru nánast engin mál á dagskrá hjá þessari ríkisstjórn. Dag eftir dag, viku eftir viku erum við búin snemma á daginn vegna þess að ríkisstjórnin kemur ekki frá sér málum. Væru þingmenn Framsóknarflokksins sem hér sitja í sal og reyna að bera blak af sínu fólki tilbúnir að bíða í 18 mánuði eftir því að fá sérstaka umræðu um jafn mikilvægt mál? Ég bara spyr. (Forseti hringir.) Ég mundi ekki vera sátt og hv. þingmenn verða að skilja að það er ekki hægt að láta bjóða sér allt og það að bíða í 18 mánuði eftir sérstakri umræðu um svo mikilvægt mál er bara ekki ásættanlegt, sama hver á í hlut.