145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

forsendur stöðugleikaframlaga.

[11:48]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Nú er stjórnarandstaðan búin að halda þinginu í gíslingu hér í á annan klukkutíma í því sem líktist málþófi á lokastigi þar sem hún heimtaði að svarað yrði spurningum um verðtryggingu. Á meðan var ekki hægt að svara spurningum þingmanna. Nú þegar hv. þm. Árni Páll Árnason fær loksins tækifæri til að spyrja spurninga hefur hann engan áhuga á að spyrja um verðtryggingu, hann spyr í staðinn um mál sem hann hefur spurt um áður og fengið svör við, (BjG: Þetta er beiðni frá síðasta …) mál sem hann hafði misst af þegar sömu spurningu, frá öðrum þingmönnum, meðal annars hv. varaformanni Samfylkingarinnar, var svarað.

Virðulegur forseti. Svo að ég ítreki það eina ferðina enn, því að hv. þm. Árni Páll Árnason virðist alltaf vera að koma af fjöllum þegar umræðan snýst um afléttingu hafta, losun hafta og uppgjör slitabúa bankanna: Það stendur ekki til að veita neinn afslátt af stöðugleikaskattinum, það kom fram þá þegar, þegar áform stjórnvalda um losun hafta voru kynnt, að þar væru tvær leiðir færar, báðar leiðir væru til þess hannaðar að ná sama markmiði, báðar leiðir væru til þess hannaðar að leysa jafn stóran efnahagslegan vanda. Það mundi gerast með ólíkum hætti en einn af kostunum við stöðugleikaskilyrðaleiðina væri sá að hún lagaði sig að umfangi vandans, sama hversu stór hann reyndist, jafnvel þótt hann reyndist stærri en næmi skattinum mundi sú leið laga sig að umfangi vandans.

Það liggur síðan ljóst fyrir og hefur gert frá upphafi að Seðlabankinn og fjármálaráðherra munu ekki fallast á stöðugleikaskilyrðin, þar með talið stöðugleikaframlögin, nema þau uppfylli það sem þeim var ætlað. Þetta hefur legið fyrir frá því að málið var fyrst kynnt, virðulegur forseti, og það er fráleitt hjá hv. þingmanni að koma hér hvað eftir annað og þykjast algjörlega koma af fjöllum um þetta allt saman.