145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

forsendur stöðugleikaframlaga.

[11:52]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Málflutningur hv. þingmanns í þessu máli er náttúrlega í besta falli hlægilegur. Hann kemur hvað eftir annað upp um sig með það að hann skilur ekki út á hvað þetta gengur allt saman, hann skilur ekki helstu staðreyndir málsins og heldur því svo hér fram að kröfuhafar, eigendur Íslandsbanka, hljóti að vera dauðfegnir að losna við eignina, banka sem er með eigið fé upp á 185 milljarða. Hv. þingmaður heldur þessu fram hafandi sjálfur verið í ríkisstjórn sem ekki aðeins afhenti þennan banka kröfuhöfunum og fleiri banka heldur ætlaði auk þess að setja nokkur hundruð milljarða í viðbót á skattgreiðendur til að hlaupa undir bagga með gjaldþrota bönkum. Hann kemur svo hér og skammast yfir öllu og heldur því fram að sjálfsagt séu menn bara fegnir að ríkið taki af þeim banka sem er með eigið fé upp á 185 milljarða.

Hvað varðar forsendurnar þá liggja þær fyrir, virðulegur forseti, þær verða ítrekaðar og gerð enn betri grein fyrir þeim en það er ekki ríkisstjórnin — þetta er enn eitt atriðið sem virðulegur þingmaður virðist ekki hafa skilið — sem hleypir þessu í gegn. Þetta fer fyrir dómstóla. (Forseti hringir.) Þetta fer fyrir dómstóla á endanum sem skera úr um það hvort fallist skuli á nauðasamninga.