145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

hælisleitendur.

[12:19]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Það er þannig að þessi mál sem hv. þingmaður nefnir — og ekki standa efni til þess að ég fari yfir þau hér, eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu — eru ekki tæmd á stjórnsýslustigi enn þá. Sett var á laggirnar úrskurðarnefnd í útlendingamálum sem hefur endanlegt ákvörðunarvald á stjórnsýslustigi og ég veit ekki til þess að hún sé farin að fjalla um þetta tiltekna mál. Ég veit ekki hvort þau hafa verið kærð eða ekki, ég tel þó að það hafi verið gert og þá verðum við að bíða eftir því að niðurstaða fáist og leiðbeiningar líka frá úrskurðarnefndinni um mörg þau álitamál sem hv. þingmaður nefnir. Það eru auðvitað bæði Útlendingastofnun og úrskurðarnefnd sem túlka löggjöfina. Það eru ákveðin grundvallarprinsipp í henni en það þarf alltaf að líta til úrskurðanna og athuga hvaða fordæmisgildi þeir geta haft í öðrum málum o.s.frv.

Varðandi það sem hv. þingmaður spyr um líka þá er það þannig að ráðherra getur gefið út stjórnvaldsfyrirmæli. Þau hafa verið gefin út í tvígang. Annars vegar 2009 gagnvart Grikklandi. Þá var tekin sú afstaða að ekki ætti að senda fólk til baka til Grikklands þegar um væri að ræða fólk í þessari hælismeðferð. Það hefur farið fram með þeim hætti. Hins vegar gagnvart Ítalíu árið 2014 að því leyti til að að meginstefnu eru aðilar í viðkvæmri stöðu ekki sendir til baka en þó er hægt að fara í skoðun á einstökum málum og kveða þá upp úr um það hvort skilyrði séu uppfyllt. Það var það sem Hæstiréttur staðfesti líka um daginn að málsmeðferð væri í lagi þannig að það er allt samkvæmt reglum.

Ég hef síðan ákveðið að fara aftur yfir alla þessa þætti út af þessum tilteknu löndum með því að vera með einhverja yfirvegaða afstöðu í málinu. Það var í því ljósi sem ég orðaði þetta svona í október en þeirri vinnu er ekki lokið. Hún er hluti af öllu þessu iði sem þessi málaflokkur er á til að við getum undirbyggt þær ákvarðanir og þá afstöðu sem maður hefur til lengri tíma á rökum.