145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega er það spurning hvort menn fari að blanda þarna saman viðskiptum og þróunarsamvinnu og er talið af öllum fagaðilum að það sé mjög hættulegt að blanda því saman og sagt að aðgreina eigi þetta. Það hefur auðvitað verið alveg aðgreint með því að hafa Þróunarsamvinnustofnun með það hlutverk sem hún hefur og það hefur ekkert blandast saman við viðskipti.

En það er óljóst hvernig fjármunirnir nýtast svo í stofnuninni og hvernig eftirlitið verður með nýtingu fjármunanna. Það er auðvitað ekki boðlegt að framkvæmdarvaldið sé með allt á sinni hendi. Það eitt og sér er ekki boðlegt í dag að menn fari aftur í þann farveg. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

Það er ekki endalaust hægt að draga fé í utanríkisþjónustuna og það verður alltaf einhver að draga línuna í þeim málaflokki. Þetta verkefni, alþjóðleg þróunarsamvinna, er alveg sér á báti og á að halda alveg henni sér, burt séð frá öðrum viðskiptalegum hagsmunum. Ég vil nefna að á síðasta kjörtímabili lagði þáverandi ríkisstjórn myndarlegt framlag til þessa málaflokks, 1 milljarð, sem hefði átt að vaxa. Framlögin væru tæpir 5 milljarðar ef því hefði verið haldið áfram. Veldur hver á heldur og ég er ansi hræddur um að þessi málaflokkur, þróunarsamvinnan, muni gjalda þess að fara inn í hítina í utanríkisráðuneytinu. Er varað við því í umsögnum og fram kemur í nefndaráliti minni hlutans að varað sé við því að faglegt starf gjaldi þess að fara inn í ráðuneytið og að erfitt sé að tryggja að fjármunir nýtist og skili sér sem best þegar þetta er allt á sömu hendi. Auðvitað þurfum við þingmenn að vera með eftirlitshlutverk í þessum málum en það þarf þá að vera nægilega gagnsætt til að hægt sé að sinna því eftirliti.