145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

málefni Ríkisútvarpsins.

[15:22]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að því menningarhlutverki sem hann lýsti sé vel sinnt og að Ríkisútvarpinu sé gert kleift að gera það vel. Eins má nefna hluti eins og mikilvægi þess að það mikla safn menningarefnis sem Ríkisútvarpið heldur utan um sé varðveitt og farið vel með það. Ég hef reyndar sjálfur, virðulegi forseti, reynt að leggja mitt af mörkum við að vernda þessar menningarminjar í Ríkisútvarpinu. Þetta og ýmislegt fleira eru mikilvæg hlutverk sem Ríkisútvarpið hefur gegnt og mikilvægt að það hafi aðstöðu til þess, en þá er líka mikilvægt um leið að huga að öllum þeim breytingum sem eru að verða á fjölmiðlum og fjölmiðlamarkaði og hvernig fjölmiðlar eru reknir og laga Ríkisútvarpið og hlutverk þess að því. Þess vegna ber að fagna því að hæstv. menntamálaráðherra skuli hafa lagt í þá vinnu að meta stöðu Ríkisútvarpsins, möguleika þess á að sinna hlutverki sínu, fara yfir fjárhagsstöðuna og kortleggja hana og hæstv. menntamálaráðherra hefur boðað það að í framhaldinu muni hann setjast að vinnu við að fara yfir hlutverk Ríkisútvarpsins. Ég þykist vita það að hæstv. menntamálaráðherra sé sammála mér og hv. fyrirspyrjanda um mikilvægi þess að leggja áherslu á menningarþáttinn, hluti sem menn hafa kannski ekki aðgang að annars staðar, hluti sem fjölmiðlar í samkeppnisrekstri hafa kannski ekki sett í forgang, og að þar geti þurft að hafa forgöngu ríkisins og fjárveitingar frá ríkinu til þess að þeim þáttum sé sinnt.