145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

stöðugleikaframlag slitabúa föllnu bankanna.

[15:38]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég var alls ekki að spyrja um mat Seðlabankans á þessum samningum. Það stendur einfaldlega í glærusýningunni, sem er það eina sem þingmenn hafa hérna, það er glærusýning og mötun af hálfu stjórnvalda um hvað þarna hefur gerst. Það stendur reyndar í glærusýningunni að þetta séu nauðasamningar, það hafi verið samið um lyktir máls. Þannig hefur þetta verið kynnt, stuð í stuð í sumar og svo aftur í haust, samningar við kröfuhafa um að þeir fari út með ég veit ekki hvað mikið. Það kom ekki svar við því og ég spyr hæstv. ráðherra aftur: Hvað eru kröfuhafar, hinn samningsaðilinn, að fá út úr þessum díl? Hvað ætla þeir með úr landinu?

Með þeim eignum sem ríkið er að fá núna til ráðstöfunar er búið að hlaða veisluborðið að nýju. Það er búið að opna inn salinn og kveikja ljósin. Það er búið að dekka borðið með eignum upp á 371 milljarð að mati, sem þarf að koma í verð, sem þarf að selja eða afhenda með einhverjum hætti og innleysa með fjármunum því að annars gagnast þetta okkur ekki við afléttingu haftanna. Það er það sem ég er að spyrja hæstv. ráðherra út í. (Forseti hringir.) Hver metur þessar eignir? Eru þær þess virði sem þarna er (Forseti hringir.) eða er þetta uppbólgið verð eins og oft hefur viljað vera í hlutum sem þessum? (Forseti hringir.) Og hverjir gengu frá samningunum, fyrir hönd hverra? Eða gerðist þetta bara upp úr þurru? Gerðist ekki neitt? Lágu engir samningar fyrir? Er ekkert samkomulag? Er þetta eitthvað sem hefur gerst í loftinu? (Forseti hringir.) Þingmenn geta ekki tekið ákvörðun eða rætt mál af þessu tagi nema vera með upplýsingar í höndum, sem þeir hafa ekki í dag.