145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[14:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er með allra gleggstu þingmönnum sem hér sitja en henni tókst ekki að skýra þetta mál þannig að fullnægjandi sé. Tæknilegt úrlausnaratriði, herra trúr, svo að ég segi nú ekki neitt meira. Er það þá þannig að hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórn hans líti á það sem sérstakt hlutverk sitt að klæðskerasníða íslenskan rétt að þörfum kröfuhafa? Það er það sem hv. þingmaður var að segja hérna áðan. Hvern fjandann varðar mig um það hverjar þarfir kröfuhafa eru til að koma þessum bréfum frá sér? Um þetta var samið á milli íslensku ríkisstjórnarinnar og kröfuhafa í því sem hæstv. fjármálaráðherra kallaði lifandi samtal. Eigum við síðan, Alþingi Íslendinga, að koma hér saman og breyta því sem áður var samið um vegna þess að kröfuhafar vilja fá meira til sín? Ég þarf betri röksemdir fyrir því að rétta upp hönd með þessu en þær sem ég fékk. Ég mun aldrei samþykkja þetta nema hv. þm. Frosti Sigurjónsson, eftir atvikum framsögumaður málsins, skýri út fyrir mér af hverju ég, íslenskur þingmaður, á með þessum hætti að fara niður á hnén til að búa til enn meiri hagnað fyrir kröfuhafana. Aldrei skal það verða nema rökin liggi á borðinu. Á meðan ég er á þessu ferðalagi, (Gripið fram í.) hvers vegna á ég að samþykkja það að kröfuhafar fái enn frekara tækifæri til að notfæra sér hjáleiðina, skattafslátt hæstv. forsætisráðherra upp (Gripið fram í: Icesave.) á 450 milljarða, með því að veita þeim frest til 15. mars? Hvers vegna í ósköpunum á hið íslenska Alþingi að koma saman til að taka slíkar ákvarðanir til að veita enn meiri afslátt en búið var að gefa? (Gripið fram í.) Ég á mjög erfitt með að sjá (Forseti hringir.) hina rökrænu skynsemd í þessu máli. (VigH: Icesave.)