145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:48]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er svo sem ekki miklu að bæta við fyrra andsvar enda kom svo sem engin sérstök spurning til mín hvað ræðu mína varðar í síðara andsvari hv. þingmanns. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, það var fordæmalaus staða á Íslandi og hefur verið það frá hruni. Efnahagshrunið á Íslandi á sér ekki fordæmi. Það er einstakt í sinni röð og gerist vonandi aldrei aftur, hvorki hjá okkur né öðrum þjóðum. Þess vegna hefur þurft að gera ýmsar lagabreytingar og breytingar á reglum til að reyna að vinna sig út úr því.

Hér er hins vegar um að ræða frumvarp sem, eins og ég sagði áðan, virðist eingöngu taka mið af hagsmunum erlendra kröfuhafa, þar sem verið er að uppfylla kröfur þeirrar og óskir um lagabreytingu á Alþingi, meira og minna af einhverjum sögusögnum sem frá þeim berast. Þær upplýsingar hafa borist þeim, að sögn félaganna, að þeir telji sér ekki fært o.s.frv. Það eru bara ekki góð rök fyrir lagabreytingum. Þegar lögð er fram breyting á lögum, þegar lagt er fram frumvarp að nýjum lögum er alltaf gott að spyrja sig: Til hvers er verið að breyta lögunum? Hvaða rök eru fyrir því? Þegar rökin eins og þau sem hér eru færð fram í athugasemdum með frumvarpinu eru jafn léleg og raun ber vitni, studd jafn lélegum gögnum, lélegum upplýsingum og sögusögnum, er varla boðlegt í fyrsta lagi að leggja þau fyrir Alþingi, og enn síður að samþykkja þau.