145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[23:01]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns að það hefði vakið undrun hans að fjármálaráðherra, og reyndar báðir formenn stjórnarflokkanna hefðu nánast samþykkt og gefið út strax í upphafi þessa máls að þeir mundu samþykkja málið og vildu að það mundi ganga í gegn án aðkomu Alþingis. Þeir voru tilbúnir og lýstu því strax yfir að þetta væri það sem þeir ætluðu að gera, þ.e. að fara þessa stöðugleikaframlagaleið í stað stöðugleikaskattsleiðar sem þeir höfðu þó áður talað fyrir. Það er ekki bara fram hjá Alþingi sem þeir ákváðu að fara með þessa ákvörðun sína heldur einnig fram hjá launþegasamtökum og lífeyrissjóðum; það skiptir gríðarlegu máli fyrir báða þessa hópa hverjar lyktir þessa máls verða.

Ég hef ekki fundið rök fyrir því hvers vegna formenn stjórnarflokkanna hafa ákveðið að ganga svo hart fram í því að fara þá leið sem fjármálaráðherra sjálfur lýsti í Hörpu í sumar sem afarkosti. Þetta var afarkostur, stöðugleikaskattsleiðin var afarkostur. Það var ekki bara það að skattaleiðin væri fyrsti kostur heldur væri sú leið sem hann leggur til núna afarkostur. Enn síður skil ég þennan viðsnúning hæstv. fjármálaráðherra í dag vegna þess að enginn samanburður er lagður fram í dag um þessar tvær leiðir. Við sjáum ekki samanburðinn, við fáum ekki gögn til að bera þetta saman svo að vel fari en okkur er bara sagt að þessar tvær leiðir séu jafn gildar. Við vitum það ekki, við höfum ekki gögn um það.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvað hann telji valda því (Forseti hringir.) að hæstv. fjármálaráðherra og reyndar formenn beggja stjórnarflokkanna hafi valið þá leið sem hér er uppi á borðum — sem var af þeirra hálfu lýst sem afarkosti í sumar — í stað þess að fara þá leið sem þeir mæltu fyrst fyrir sem var um stöðugleikaskattinn.