145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[23:34]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Stöðugleikasamkomulag um framlag þrotabúanna, þ.e. stöðugleikaframlag og málið í heild sinni, snýst um að aflétta gjaldeyrishöftum á Íslandi og reyna að losa landið úr þeim erfiðleikum sem höftin og efnahagshrunið komu okkur í á sínum tíma. Málið snýst um að slitastjórnir þriggja stærstu föllnu viðskiptabanka landsins hafa óskað eftir því við Seðlabankann að þeim verði veitt undanþága til að komast með eignir sínar út úr höftunum. Seðlabankinn hefur lagt til við fjármálaráðherra að þrotabúunum verði heimilt að fara með eignir sínar út og fjármálaráðherra hefur lýst yfir að hann sé sammála þeirri greiningu. Fjármálaráðherra og fleiri hafa reyndar sagt að þess sé að vænta á allra næstu vikum og mánuðum og í byrjun næsta árs að stór skref verði stigin við afnám gjaldeyrishafta á Íslandi. Af því tilefni langar mig til að rifja upp fyrri ummæli fjármálaráðherra og forsætisráðherra um afnám hafta frá því að þeir settust í ríkisstjórn vorið 2013.

Þann 23. apríl sagði formaður Sjálfstæðisflokksins að hægt yrði að afnema gjaldeyrishöft á næstu mánuðum. Sama dag sagði formaður Framsóknarflokksins að afnám haftanna tæki ekki langan tíma. Mánuði síðar tilkynnti forsætisráðherra að höftin yrðu afnumin samkvæmt áætlun sem byggðist á hugmynd hans, sem mætti ekki segja frá. Sama dag sagði forsætisráðherra að þær hugmyndir yrðu opinberaðar í september það sama ár. Þann 15. ágúst 2013 tilkynnti forsætisráðherra að hann hefði skipað sérstakan afnámsstjóra, gjaldeyrishaftaafnámsstjóra. 20. september 2013 sagðist forsætisráðherra að afnám haftanna gæti hafist í fyrirsjáanlegri framtíð. 15. október 2013 fullyrti fjármálaráðherra að stutt væri í afnám haftanna. Þann 16. október 2013 sagði fjármálaráðherra að meiri háttar skref um afnám haftanna yrðu tilkynnt á næstu fimm mánuðum. 30. október 2013, fyrir tveimur árum, sagði forsætisráðherra að það tæki skamman tíma og langan tíma að afnema höftin. Þann 15. nóvember tilkynnti forsætisráðherra skipun sérstaks ráðgjafarhóps um afnám haftanna. 30. nóvember 2013 sagði forsætisráðherra að skattlagning þrotabúanna mundi ekki tefja afnám haftanna.

Í lok janúar sagði forsætisráðherra að ríkisstjórnin hefði skamman tíma til að afnema höftin. Þann 9. febrúar 2014 sagði fjármálaráðherra að afnám haftanna gæti hafist á árinu, þ.e. árinu 2014. 20. febrúar 2014 sagði forsætisráðherra að það þjónaði ekki tilgangi að opinbera leynilega áætlun sína um afnám haftanna. 20. febrúar 2014 sagði forsætisráðherra sömuleiðis að beðið væri eftir gögnum frá Seðlabankanum til að hægt væri að greina frá hugmyndum stjórnvalda um afnám haftanna. 25. febrúar 2014 sagði fjármálaráðherra að framkvæmd afnáms gjaldeyrishaftanna væri í fullum gangi. 27. mars 2014 sagði fjármálaráðherra að afnám haftanna væri forgangsmál hjá ríkisstjórninni. 4. apríl 2014 tilkynnti fjármálaráðherra um fjölgun ráðgjafa við afnám haftanna. Þann 7. júní 2014 segir fjármálaráðherra að pólitískan kjark þurfi til að afnema höftin o.s.frv. 11. nóvember 2014 sagðist fjármálaráðherra vongóður um að opinbera áætlun um afnám haftanna fyrir jól, þ.e. síðustu jól.

4. janúar 2015 tilkynnti forsætisráðherra að næstu skref við afnám haftanna yrðu tekin í mánuðinum. Þann 9. janúar skipar forsætisráðherra enn einn hópinn um afnám haftanna. Í lok janúar 2015 segir fjármálaráðherra að fyrri hluta ársins verði tekin stór skref við afnám haftanna, þ.e. fyrri hluta þessa árs. 10. apríl 2015 sagði forsætisráðherra að ný áætlun um afnám haftanna yrði lögð fram fyrir þinglok, þ.e. síðasta vor. Það gerðist ekki. Þann 16. apríl 2015 sagði fjármálaráðherra að áfram yrði unnið að afnámi hafta samkvæmt blandaðri leið ýmissa úrræða, eins og hingað til. 22. maí 2015 sagði fjármálaráðherra að frumvarp um losun haftanna væri væntanlegt í næstu viku, þ.e. í maí 2015. Ekkert slíkt gerðist. Nú segja þeir sömu menn að það verði stór skref stigin snemma á næsta ári við afnám haftanna. Við vitum hvaða skref það eru, það verður reyndar ekki snemma á næsta ári, það verður í fyrsta lagi síðsumars á næsta ári sem það hugsanlega gæti gerst og þau skref felast í því að kröfuhöfum verður hleypt með eignir sínar út úr gjaldeyrishöftum á Íslandi á meðan aðrir sitja þar eftir, lífeyrissjóðir, fyrirtæki og heimili. Og takk fyrir það.