145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[19:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við höldum áfram að ræða þetta stóra mál sem hefur samt svolítið farið hægt og hljótt í þingsölum Alþingis og það er tilfinning mín að almennt vilji menn krossa fingur og vona að þetta fari allt vel, að menn hafi skotið úr byssunni á rétta leið í málinu, en ég hef ekki enn þá sannfæringu fyrir því að svo sé. Ég gerði upp hug minn í dag, ég mun ekki geta stutt þann lagatilbúnað sem fylgir því að breyta lögum til að hægt sé að vinna eftir því stöðugleikaframlagi sem búið er að ákveða af stjórnvöldum að fara.

Þegar þessum tveimur leiðum var stillt upp af stjórnvöldum og tvö frumvörp fóru í gegnum þingið, þá spyr maður: Var aldrei nein meining með því að það gæti fallið þannig að lagður yrði á stöðugleikaskattur? Var það einhver sýndarmennska af hálfu stjórnvalda að stilla því þannig upp að geta svona tengt sig við hvernig menn höguðu sér á fyrra kjörtímabili með því að bölsótast út í erlenda kröfuhafa, að taka ætti þá föstum tökum og að við Íslendingar sýndum þeim fram á að við gæfum ekkert eftir í samskiptum okkar við erlenda kröfuhafa? Var þetta svona leiktjald og sýning fyrir almenning, fyrir kjósendur þessara flokka og aldrei meiningin að fara í skattlagningu á þessi slitabú? Og þegar það var gefið upp að þessir tveir möguleikar væru fyrir hendi þá duttu inn á borð strax frá kröfuhöfum tilbúnar leiðir af þeirra hálfu hvað þeir treystu sér til að leggja mikið fram í þessum efnum. Það vekur auðvitað þær hugsanir að búið hafi verið bak við tjöldin að semja við þá kröfuhafa um að fara þessa leið og með þeim skilyrðum sem þar lágu undir. Hagsmunir þeirra virðast hafa lent þar ofan á, algjörlega. Maður getur auðvitað ekki sætt sig við það, að stjórnvöld hafi látið hagsmuni kröfuhafa ganga framar hagsmunum almennings í landinu og að hagsmunir kröfuhafa hafi verið látnir njóta vafans um að hægt væri að fara þá leið, sem ég tel að búið sé að sýna fram á, að hægt sé að styðja almenna skattlagningu á slitabúin og ekkert óeðlilegt sé við það. Og þó að dómstólar taki þessi mál upp mundi það aldrei verða minna en það sem liggur fyrir í því stöðugleikaframlagi sem hér liggur fyrir að gengið verði að.

Hæstv. forsætisráðherra tjáði sig í atkvæðaskýringu í dag og talaði um að málsmeðferðin á málinu hefði verið ákveðin þegar frumvörpin tvö um þessar tvær leiðir voru samþykkt í júní í sumar. Allri ábyrgð var í raun og veru vísað á Seðlabankann og traust lagt á að hann mundi meta það að uppfylla stöðugleikaskilyrðin sem þyrfti til, hvert yrði þá framlag slitabúanna til íslenska ríkisins, að það dygði, og síðan mundi það fara í hendur fjármálaráðherra sem skrifaði upp á og mæti tillögur Seðlabankans. En hitt væri fyrst og fremst til málamynda að þetta færi í kynningu inn í þingið í gegnum efnahags- og viðskiptanefnd. Það er auðvitað mjög slæmt að þingmenn upplifi sig þannig að menn hafi afsalað sér þeim skyldum að hafa eftirlitsskyldur og ábyrgð gagnvart því sem íslenska ríkið gerir í svona risastóru þjóðhagsmáli fyrir almenning í landinu til margra ára til framtíðar litið. Manni finnst hálfpartinn eins og við þingmenn séum núna eins og halaklipptir hundar og að við höfum einhvern veginn verið teknir í bólinu með þetta mál allt saman.

En þótt verið sé að fjalla um lagatæknilegt mál í dag sem snýr að því að aðlaga lög okkar að stöðugleikaframlaginu þá er það skylda, finnst mér, okkar þingmanna, og ég tala auðvitað fyrst og fremst fyrir mig sjálfa, að meta hvernig þessir hlutir blasa við á þessari stundu, hvort hagstæðara sé fyrir íslenskt samfélag að fara stöðugleikaframlagsleiðina eða skattlagningu. Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir í dag mundi ég styðja það að farin yrði skattlagning á slitabúin.

Við höfum fengið ýmsar umsagnir til dæmis frá Indefence sem mér finnst að rökstyðji mjög vel að framsetning Seðlabankans á stöðugleikaframlaginu hafi verið mjög villandi. Í umsögn þeirra koma margar mjög alvarlegar athugasemdir og umhugsunarverðar, sem er auðvitað mjög slæmt að teknar séu til umfjöllunar of seint í raun og veru til að hafa áhrif á framhaldið í málinu, stjórnvöld eru búin að skjóta úr þessari byssu sinni og enginn veit hvort það hafi verið púðurskot eða ekki. Það á reynslan eftir að leiða í ljós. Við þingmenn höfum fengið aðvaranir og annað í formi mjög ítarlegrar umsagnar frá Indefence í þessum málum sem margir sérfræðingar skrifa undir. Þeir hafa lagt mat á mörg mál sem snerta þjóðarhag, eins og Icesave á sínum tíma og var hlustað mikið á þann hóp þá. Ekki er gert meira með það en að til málamynda komi það fyrir efnahags- og viðskiptanefnd og Seðlabankann til að skoða og fara yfir, en síðan er búið að taka þessa gífurlega stóru ákvörðun, hún er ekki lengur í höndum okkar þingmanna heldur í höndum Seðlabankans og á borði hæstv. fjármálaráðherra.

Ég lýsi mikilli vanþóknun á hversu lítið samráð hefur verið haft við stjórnarandstöðuna í málinu og það er auðvitað ríkisstjórninni til háborinnar skammar hve það hefur verið lítið. Samráðsnefnd var til um losun hafta sem hefur á undanförnum mánuðum verið algerlega óvirk og hunsuð í þessum málum öllum og ekki neitt upplýsingaflæði hefur verið um þennan stóra gjörning til okkar þingmanna fyrr en kannski bara á lokastigum málsins. Við sem þjóð komum kannski til með að sitja uppi í höftum og kröfuhafar komast út með 500 milljarða sisvona á næstu árum. Engin áætlun eða plön liggja fyrir um hvernig hagur almennings er tryggður, hvernig hagur fyrirtækja í landinu er tryggður, hvernig hagur lífeyrissjóðanna er tryggður og annarra fjárfesta í landinu, engin áætlun liggur fyrir um hvernig verður síðan hægt að losa um gjaldeyrishöft gagnvart þjóðinni. Kröfuhafarnir geta slegið sér á lær og farið út með 500 milljarða en við sitjum áfram í óvissu um hvernig mál koma til með að þróast gagnvart þeim aðilum í þjóðfélaginu sem koma til með að starfa hér áfram og búa í íslensku efnahagskerfi og við íslenskan veruleika. Þetta finnst mér vera mjög umhugsunarvert og líka það að það er eins og fjölmiðlar treysti sér ekki í þessa umræðu, hafi ekkert gluggað í hvað þarna er á ferðinni og menn leggi bara allt sitt traust á það að Seðlabankinn hljóti að hafa bestu yfirsýn í þessum málum og það sé ekkert sem hægt sé að gagnrýna.

Seðlabankinn var að hækka stýrivexti í dag og ein af röksemdum fyrir því að hann hækkaði stýrivexti var að óvissa væri í efnahagsmálum. Ætli hluti af þeirri óvissu sé ekki einmitt þetta stóra mál, hvernig við komumst sem þjóð út úr gjaldeyrishöftum og hvaða áhrif þessi aðgerð hefur, hvort hún hafi þau áhrif að hún dugi til og ef hún dugar ekki, þá getur hún auðvitað haft gífurleg áhrif á þróun efnahagsmála í landinu næstu árin og áratug og lengra til framtíðar litið. Eins og nefnt hefur verið í umræðunni erum við að skjóta vanda inn í framtíðina, sem við sjáum ekkert fyrir endann á hvernig eigi að leysa. Það er eitthvað sem er ekki hægt að skrifa upp á, þegar menn velta vandanum fram í tímann. Rætt hefur verið um vanda lífeyrissjóðanna í landinu til að fjárfesta. Ekki er gert ráð fyrir að þeir geti fjárfest erlendis í þessum áætlunum nema fyrir 10 milljarða, en þörfin er auðvitað miklu meiri en það, mjög brýn, og miðað við áætlanir um þetta svokallaða SALEK-samkomulag þá þýðir það að hækka eigi iðgjöld inn í sjóðina, sem eykur enn meira á þann vanda sem er hjá sjóðunum, að ávaxta fjármuni fyrir félagsmenn sem er auðvitað mjög mikil þörf á.

Að lokum vil ég segja að í málinu er miklu fleiri spurningum ósvarað en hefur verið svarað. Það er hreinlega ekki hægt að treysta á guð og lukkuna í svona stóru máli og telja að það sé bara gott að búið sé að ná samkomulagi um nauðasamninga við slitabúin, heldur verður að skoða gagnrýni sem hefur komið fram frá mörgum aðilum og var farið vel yfir í máli manna í gær, eins og hv. þm. Björns Vals Gíslasonar og fleiri. Það verður að hlusta á þá gagnrýni og skoða þetta enn betur og hvort skatturinn sé ekki miklu hreinlegri leið sem gagnast okkur sem samfélagi.