145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[20:05]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er óhætt að segja að þetta málefni valdi okkur mörgum áhyggjum og ástæða til að ræða það áfram því það sem gerðist í dag hefur ekki styrkt mann í trúnni á að hér sé verið að fara upplýsta og vandaða leið. Þetta segi ég í ljósi þess að þegar á síðasta kjörtímabili, nánast um leið og höftin voru komin á, var lagt af stað og farið að huga að því hvernig væri hægt að losa um þau og þá var settur á fót samráðshópur um afnám hafta sem fundaði reglulega og hafði eitthvað um málin að segja. Því hefur eiginlega verið þveröfugt farið á þessu kjörtímabili eins og við höfum komið að í ræðustól þingsins og kvartað yfir. Það er alveg ljóst að það traust sem hefði þurft að vera til staðar til að við gætum unnið að þessu stóra og mikilvæga málefni í sameiningu hefur ekki verið nægilegt, því hefði mátt ná fyrst og fremst með því að vera með allt uppi á borðum, bæði gögn og samtal, og þá held ég að niðurstaðan væri önnur í dag, vil ég leyfa mér að segja. Fólk hefði að minnsta kosti komið að borðinu upplýstara en það er í dag. Við erum mörg sem teljum að erfitt sé að taka ákvörðun byggða á því sem hér hefur verið lagt fram.

Það hlýtur að valda fleirum en okkur örfáu sem hér hafa talað í þessu máli áhyggjum hvað kröfuhafar hafa verið kátir með þessa niðurstöðu. Það kom eiginlega strax fram. Það er auðvitað ekki svo eins og hér hefur verið reynt að láta í veðri vaka af hálfu þeirra stjórnarliða sem hafa talað að stöðugleikaskilyrðin hafi verið jafn mikið rædd og stöðugleikaskatturinn, það var alls ekki svo þegar forkólfar ríkisstjórnarinnar kynntu þessi mál. Það vakti líka ákveðinn ugg þegar áætlun um nauðasamninga birtist á vef ráðuneytisins strax að lokinni kynningu ríkisstjórnarforustunnar. Það sýnir manni að það er auðvitað verið að vinna eitthvað annars staðar en með þeim sem eiga svo að taka ákvörðun hér.

Stöðugleikaskatturinn eins og hann var kynntur átti að skila okkur stórum fjárhæðum, að minnsta kosti mun hærri en hafa verið lagðar hér á borð í dag og í gær. Margir hafa reynt að greina tölurnar í þessu máli og hér hefur verið vitnað töluvert í greiningu Indefence. Ég ætla ekki að halda því fram að það sem þar kemur fram sé óskeikult, ekki frekar en kannski hjá Seðlabankanum, en mér finnst hins vegar athyglisvert að þarna eru færðar fram ansi sterkar röksemdir sem ég tel óskynsamlegt að ætla ekki að ræða og skoða áður en ákvörðun verður tekin um þetta mál. Mér finnst það afar óábyrgt og sérstakt svo ekki sé meira sagt að bjóða þinginu upp á slík vinnubrögð að fá ekki til samræðu þá aðila sem hafa sett fram ríkar efasemdir fyrr en þessu er lokið. Ég veit eiginlega ekki hvernig fulltrúum meiri hlutans tekst að taka þessa ákvörðun í ljósi þess sem þar kemur fram og mér þykir það afar óábyrgt.

Hér eru undir afar miklir fjármunir og ég er hrædd um að á síðasta kjörtímabili hefði bókstaflega allt farið á hliðina ef við hefðum látið okkur dreyma um að leggja málið fram með þeim hætti sem hér er gert og vinna það svona. Ég gagnrýni ríkisstjórnina mjög fyrir þetta og ég gagnrýni líka að ráðherrarnir hafa ekki séð ástæðu til að vera í þingsal og taka þátt í umræðu og svara spurningum um þetta mál og svara þeirri gagnrýni sem fram hefur komið af hálfu þeirra sem hafa efasemdir. Það finnst mér líka áhyggjuefni. Þetta var eitt af því sem var lofað í kosningabaráttunni, það átti að nýta þessa peninga í alls kyns loforð eins og við munum væntanlega flest og ég held að það sé margbúið að nýta þá fjármuni sem áttu að koma út úr þessa og eiga að koma. Í kynningunni voru settar fram miklu stærri tölur en hér er niðurstaðan. Þess vegna er athyglisvert að ráðherrarnir treysti sér ekki til að vera í þingsal, hvorki í gær við umræðuna né í dag, til að svara spurningum sem hafa verið bornar fram af hálfu umsagnaraðila og þingmanna.

Indefence segir að þeir telji það ekki forsvaranlegt að veita undanþágu til kröfuhafa þegar áhættan af áföllum sé skilin eftir hjá almenningi. Ég hlýt að taka undir að það er akkúrat það sem við höfum áhyggjur af, bæði varðandi þróun greiðslujafnaðar því hér virðist í raun aðeins verið horft fram til ársins 2019 og höftin sem losa á um virðast ekki duga nema bara fyrir kröfuhafa, ekki fyrir almenning, fyrirtæki eða lífeyrissjóðina eins og áður hefur verið rakið. Síðan er það ferlið þessu tengt, þ.e. hvernig eigi að losa um höftin gagnvart almenningi og fyrirtækjunum á Íslandi, það plan hefur ekki verið lagt fram þrátt fyrir að það hafi átt að birtast fyrir alllöngu síðan. Stjórnvöld héldu því fram í júní að haftaafnámsferlið ætti að vera grundvallað á, með leyfi forseta, „hagsmunum heimila og fyrirtækja enda er það skilyrði aðgerðanna að raunhagkerfið taki ekki út frekari aðlögun en þegar er orðin“. Margir telja að þetta sé ekki svo í niðurstöðunni sem hér liggur fyrir og við hljótum að velta því fyrir okkur hvers vegna það er ekki.

Í gær var mörgum spurningum varpað fram í umræðunni og lögð hefur verið fram fyrirspurn í tíu liðum frá hv. þm. Birni Val Gíslasyni um þetta efni. Það verður áhugavert að sjá hverju stjórnvöld svara, sérstaklega eftir þennan fund sem haldinn verður á morgun og í ljósi þess að þá verður auðvitað búið að svara þessu, en þau svör hafa ekki komið fram í máli þeirra sem hér hafa talað, það hefur ekki verið hægt að svara því. Svo virðist sem þeir sem fara fyrir málinu hafi ekki þau svör sem þó skipta gríðarlega miklu máli, þ.e. hvað verður eftir og hvers vegna gengið hefur verið að tilboðum um t.d. afsal á hlutafé í eignarhaldsfélagi Íslandsbanka í stað þess að krefjast stöðugleikaframlags í fjármunum. Það var ekki gert gagnvart Kaupþingi. Í þessu sambandi er vert að ræða að með því sem núna liggur á borðinu koma inn í raun 8 milljarðar í peningum. Það er allt og sumt. Hitt eru eignir og mat þeirra breyttist að minnsta kosti á tiltölulega skömmum tíma, eins og t.d. Íslandsbanka úr 150 milljörðum í 185 og enginn virðist beinlínis geta fært rök fyrir því hvers vegna þegar formaður slitastjórnar nefndi fyrri töluna í sumar.

Svo höfum við áhyggjur af því hverjir ætli að kaupa þessa banka. Það virðist ekki vera mikil eftirspurn erlendis eftir þeim. Auðvitað er eðlilegt í ljósi sögunnar að hafa áhyggjur af því hverjir koma til með að eignast bankana. Það væri óeðlilegt ef við hugsuðum ekki nokkur ár aftur í tímann þegar bankarnir voru einkavæddir og veltum því fyrir okkur. En fyrst og fremst koma hér inn allt of litlir fjármunir í krónutölum og þeir eiga allir, það er í rauninni skilyrt samkvæmt þessu frumvarpi, að fara til niðurgreiðslu á skuldum. Það skapar vissulega rými vegna lægri vaxtakostnaðar en ég held að ríkisstjórnarforustan sé búin að margnota þessa peninga eins og ég segi, loforð framsóknarmanna um 300 milljarða varð að 80 sem var svo greitt úr ríkissjóði, það átti bara að vera tímabundið vegna þess að þetta kæmi nú allt inn síðar meir með hrægömmum. Það má vel vera að hægt sé að nýta féð með margvíslegum hætti en þá er vert að minna á að innviðirnir eru kannski ófjármagnaðir.

En það er fleira sem er athugunarvert varðandi eignirnar og bankana, m.a. það að hér er verið að meta allt upp í topp. Þrátt fyrir að ekki séu sýnilegir kaupendur að bönkunum er verið að meta þá á mjög háu verði og mun hærra en í löndunum í kringum okkur, bókfært verð þeirra er miðað við Q-hlutfall 0,9 og Deutsche Bank 0,5 en hér er gert ráð fyrir Íslandsbanka á 1 og það er auðvitað líka áhyggjuefni. Það kemur fram í áliti Seðlabankans varðandi í rauninni allar þessar tölur að gert er ráð fyrir því að allt gangi eftir og allt gangi smurt en við vitum að það er hæpið að svo fari.

Í frétt RÚV í lok október þar sem er verið að ræða þessi mál er m.a. vitnað í Svein Valfells sem er eðlis- og hagfræðingur og er reyndar hluti af Indefence-hópnum. Hann gerir ráð fyrir því að kröfuhafarnir fjármagni þessa nýju banka og að fjárfesting þeirra verði með öðrum hætti hér á landi til lengri tíma þannig að áhættufjárfestar gömlu bankanna fái mikinn skattafslátt vegna þess að þeir veiti nýju bönkunum lán sem þeir geti fengið annars staðar. Hann telur líka að með þessu verði stór hluti vandans eftir, þ.e. 20% af landsframleiðslunni, það er um það bil milljón á hvert mannsbarn á Íslandi eða 4 millj. kr. eða meira á hverja fjölskyldu. Þetta mun sem sagt fara út úr landinu og hafa neikvæð áhrif á gengi íslensku krónunnar og auka verðbólguþrýsting innan lands. Hann fullyrðir að það sé bara spurning um hvenær þessi áhrif komi fram en ekki hvort. Undir þetta hafa margir tekið sem hafa verið að reyna að reikna sig út úr þessari villandi framsetningu á tölum eins og hér hefur verið rakið bæði í gær og í dag þar sem er verið að setja alls konar fjármuni inn í þessa tölu, 815 milljarða, sem hefðu hvort sem er innheimst burt séð frá öllu því sem hér er lagt til. Það hefði ekki breytt neinu um það. Og það er óeðlilegt að það sé bara gert þegar stöðugleikaframlagið er sett fram en ekki stöðugleikaskatturinn. Svo saknar maður þess verulega að ekki skuli vera samanburður á þessum tveimur leiðum, hvað þessi framsetning hefði þýtt nákvæmlega fyrir þær báðar, þ.e. ef þær tölur og þeir liðir sem taldir eru inn í stöðugleikaframlagið og hefðu hvort sem er innheimst hefðu líka verið settir inn í stöðugleikaskattsleiðina. Auðvitað eiga að liggja til grundvallar sviðsmyndir sem sýna báðar leiðirnar vegna þess að það er hægt að fara þær báðar enn þá.

Þrátt fyrir að stöðugleikaskatturinn hafi í raun verið efstur í kynningum ríkisstjórnarflokkanna er þetta niðurstaðan en við fáum ekki að sjá af þeirra hálfu hvernig stöðugleikaskatturinn gæti litið út með hinni leiðinni. Það er auðvitað miður og ýtir enn þá meira undir efasemdir um það hvort við séum að fá í rauninni þá fjármuni sem við gætum fengið, hvort þeir sem ollu þessum skaða getum við sagt og eru núna að fara út úr landinu með mikla peninga gætu borgað meira.