145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[22:14]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Ég er með aðra spurningu þar sem komið er inn á heimildirnar. Þar er rætt um heimild vegna aðildar Íslands að Innviðafjárfestingabanka Asíu. Þetta vekur nokkrar spurningar. Þarna er verið að leggja að veði 2,3 milljarða ísl. kr. í erlendum gjaldmiðli og fimmtungur þeirrar fjárhæðar skal borga strax eða fljótlega.

Ég velti fyrir mér: Hver eru rökin fyrir Ísland að taka þátt í slíkum fjárfestingabanka sem starfar eingöngu í Asíu og Eyjaálfu og vinnur eingöngu að innviðaverkefnum þar? Hvers vegna vill Ísland vera í þessum banka? Aðrar þjóðir vilja það ekki, eins og Bandaríkin og Japanir. Hvernig getur þetta gagnast skattgreiðendum? Ég skil hvernig þetta getur gagnast einhverjum fyrirtækjum, t.d. íslenskum (Forseti hringir.) verkfræðifyrirtækjum sem vilja taka þátt í verkefnum í Asíu. Er eðlilegt að skattgreiðendur taki til hliðar 2,5 milljarða af sínum gjaldeyri svo að eigendur verkfræðifyrirtækis geti átt kost á því að taka þátt í verkefnum í Asíu?