145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

landbúnaður og búvörusamningur.

[14:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna þessari umræðu og þó lengri væri. Það er þarft að taka hér fyrir stöðu innlendrar landbúnaðarframleiðslu. Ég er reyndar með fyrirspurn, sem ég lagði fram fyrir alllöngu um þetta mál, sem hefur dregist nokkuð að svara, en vonandi kemst nú að í næstu viku.

Það er að mínu mati orðið mjög aðkallandi, og í sjálfu sér gagnrýnisvert, hversu stutt er orðið eftir í samningunum. Ef ég man rétt þá er garðyrkjusamningurinn í þann veginn að renna út, eitt ár er eftir af mjólkursamningnum og tvö af sauðfjársamningnum. Við bætist veruleg óvissa sem hefur fylgt í kjölfar þess að tveir ráðherrar Framsóknarflokksins gerðu samning við Evrópusambandið sem gerbreytir starfsumhverfi nokkurra greina og dregur verulega úr þeim stuðningi sem þær hafa haft af tollvernd, og hefur auðvitað afleidd áhrif á allar greinar íslensks landbúnaðar.

Það er því mjög brýnt að það skýrist fyrr en seinna hvernig starfsumhverfi innlendrar landbúnaðarframleiðslu verði hagað næstu árin. Það þarf að vera fyrirsjáanleiki í þessu eins og öðru og þar á meðal hvers konar aðlögun eða stuðning þær greinar fá þá í nýjum búvörusamningi sem verða fyrir mestum áhrifum af tollasamningnum komi hann í gildi.

Ég held í öðru lagi, varðandi fyrirkomulag stuðnings hér, að ekki verði undan því vikist að taka til skoðunar og svara spurningum um hversu mikla samþjöppun eða þróun í átt til verksmiðjubúskapar við viljum sjá í íslenskum landbúnaði, t.d. í mjólkurframleiðslu. Þeim spurningum er ekki seinna vænna að svara. Og það er hárrétt, sem hv. þm. Lárus Ástmar Hannesson nefndi, að menn skulu stíga varlega til jarðar gagnvart þeirri velvild sem innlend framleiðsla hefur notið meðal landsmanna, m.a. vegna þess að fjölskyldubúið hefur verið grunneiningin og þetta hefur um leið verið stuðningur við búsetu í sveitum. Það er ekki víst að sá velvilji verði til staðar ef framleiðslurétturinn með stuðningi ríkisins sópast saman í örfá verksmiðjubú.

Ég held því að það sé ekki seinna vænna að reyna að svara þessum grundvallarspurningum í komandi samningum.