145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:18]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir spurningu sem snýr að virðisaukaskattskerfinu og samhengi við það sem ég fullyrti áðan, að skattstefna ríkisstjórnarinnar væri að skila sér. Þegar ég tala um það er ég að tala um það meginmarkmið sem öll stjórnvöld hafa í raun og veru, markmið um fulla atvinnu. Eftirspurn eftir vinnuafli er afleidd eftirspurn, þ.e. hún er háð eftirspurn eftir vöru og þjónustu almennt. Hér erum við sannarlega komin á þann stað að við erum að fullnýta þann framleiðsluþátt sem er vinnuafl. Atvinnuleysi er skráð um 3% sem fer nærri því sem hagfræðingar mundu telja að væri náttúrubundið atvinnuleysi.

Á sama tíma er þess vegna athyglisvert að horfa til þess að virðisaukaskatturinn sem tekjur skilar sér ekki í sama mæli. Í frumvarpinu er ágætlega farið yfir að það virðist vera hagsveiflutengt. Ég tók þetta upp í ræðu minni vegna þess að svo virðist sem að á samdráttarskeiði og í kreppu skili virðisaukaskatturinn sér síður en það sé tregbreytanlegt í uppsveiflu, að það hegðunarmynstur á skattskilum ef við getum kallað það þannig komi ekki til baka. Þó að þetta komi fram hjá öðrum þjóðum, það er talað um það í frumvarpinu, tel ég alveg rannsóknarefni af hverju hann skilar sér ekki miðað við þær breytingar sem við höfum sannarlega gert á kerfinu og ég tel að hefðu átt að vera til bóta.