145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:23]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur seinna andsvar. Það snýr að atvinnustefnu, ferðaþjónustunni, skilvirkni virðisaukaskattskerfisins og því hugtaki sem heitir framleiðni. Ég er sammála hv. þingmanni með megininntakið í spurningunni, það sem lýtur að ferðaþjónustunni. Það er hárrétt, það hefur löngum verið vitað að framleiðni í ferðaþjónustu er lág. En hvað er framleiðni í ferðaþjónustu? Það getur verið ansi snúið að reikna út framleiðni í ferðaþjónustu. Hún snýr að nýtingu vegna þess að við erum fyrst og fremst að tala um þjónustu eins og orðið bendir til. Það verður oft og tíðum mjög teygjanlegur mælikvarði, það hvað við afköstum mörgum einingum á þá framleiðsluþætti sem við nýtum í ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta er byggð upp af mjög mörgum atvinnugreinum. Þess vegna verða til mjög margir framleiðnimælikvarðar. Sá helsti er afköst. Öll tekjustýring helstu ferðaþjónustufyrirtækja sem við skoðum í því tilliti er að því meiri sem nýtingin er, hvort sem það er í formi flugsæta eða gistingar, þeim mun meiri mælist framleiðni. Það hefur hins vegar alltaf fylgt ferðaþjónustu, þó að hún sé vinnuaflsfrek og að því leytinu til jákvæð, að laun eru lág. Það er heimsþekkt. Þess vegna verðum við að taka mið af öllum þessum þáttum. Það jákvæða við ferðaþjónustuna í þeim hremmingum sem við vorum að vinna okkur út úr er að hún er vinnuaflsfrek og hefur þá hjálpað okkur í tvennu, þ.e. að afla gjaldeyristekna og skapa hér fulla atvinnu.