145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

staða heilsugæslustöðva og heimilislæknar.

[10:44]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svörin en það er alveg ljóst að ekki er nóg að horfa bara til þess að mennta fleiri lækna þó að það sé mjög mikilvægt. Það hefur komið fram hjá sérfræðingum á þessu sviði að margir vilja hreinlega ekki koma heim eftir nám og þarna er einmitt um að ræða eina af þeim starfsstöðvum hérlendis þar sem ekki er hægt að fá að ráða lækna erlendis frá. Það er bara þannig. Kostnaðurinn við það að fólk viti hreinlega ekki í hvorn fótinn það eigi að stíga þegar það kennir sér meins er mikill. Það fer þá frekar til dæmis á neyðarmóttöku eða læknamiðstöðvar þar sem fólk fær ekki almennilega greiningu. Ég hef ítrekað farið þangað og veit um marga sem fara þangað og það er bara happa og glappa aðferðin hvaða lækni maður fær og hversu mikinn tíma maður fær til að fara ofan í hvað er að. Það á í rauninni eingöngu að vera fyrir neyðartilvik. Þannig að þetta er löngu sprungið.

Það er mjög gott að fjölga þessum stöðvum en það er enn þá þannig að það er viðvarandi vandamál á landsbyggðinni að heimilislæknar vilja ekki fara þangað vegna erfiðra starfskjara. Því verð ég að spyrja: Hver er nákvæmlega stefna ráðherrans í þessum málaflokki? Er á einhvern hátt brugðist við því neyðarástandi sem þarna er? Nóg er nú álagið á spítölum landsins út af öllu því sem á undan er gengið að bæta ekki þar á. Þess vegna verð ég að spyrja nákvæmlega: Hver er stefna ráðherra? Er brugðist við þessu ástandi í fjárlögum?