145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

frumvörp um húsnæðismál.

[10:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef ástæðu til að ætla að að minnsta kosti sumir aðilar vinnumarkaðarins séu ekkert allt of sáttir við þennan farveg og hvernig málin ganga fram.

Ég nefndi það að ég væri að taka þetta mál upp líka sem nefndarmaður í velferðarnefnd. Þetta er mikill pakki sem nefndin hefur beðið eftir og það er auðvitað ekki boðlegt ef nefndin á svo allt í einu að fá rétt fyrir jól bunka af frumvörpum og hafa engan tíma til að vinna þau. Þetta eru flókin mál og mjög margt umdeilanlegt og umdeilt í útfærslum í þessum efnum eins og sýndi sig í fyrravor þegar hæstv. ráðherra kom þó einu eða tveimur frumvörpum til þings. Þau fóru aldrei lengra, en þá þegar kom í ljós að margt í þessu var umdeilanlegt og umdeilt, tæknilegt og flókið.

Ég vek bara athygli á því að svona geta þessir hlutir ekki gengið fyrir sig. Alþingi getur ekki verið algjör afgangsstærð í þessum efnum ef á að vinna þessi mál vel og gefa til þess eðlilegan tíma á þinginu. Mér sýnist algjörlega ljóst að hæstv. ráðherra sé fallinn á tíma með þetta allt saman fyrir jól og það fer að ganga (Forseti hringir.) á kjörtímabilið, hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, ef eitthvað á að gerast.