145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

nýr Landspítali.

[10:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hugleiðingu hans í upphafi síns máls og árnaðaróskir og þakkir til allra sem að þessu verki hafa komið. Hann á sömuleiðis heiður skilinn fyrir sína framgöngu í því máli. Þetta var virkilega ánægjulegur dagur, ánægjuleg stund, og í anda dagsins, 11.11. kl. 11.11, held ég að það sé hægt að vonast eftir því að menn geti unað því og samið um málalok í deilum og unað við þá niðurstöðu sem þar var fengin, í anda þess sem gert var árið 1918, að menn sættu sig bara við orðinn hlut, luku deilum sínum og horfðu bjartari augum til framtíðar. Ég vona að við gerum það svo sannarlega hér í þessu máli.

Það sem lýtur að fjármögnun frekari framkvæmda við þessi áform verður að koma inn í ríkisfjármálaáætlun til lengri tíma. Við höfum núna í gildi ríkisfjármálaáætlun 2016–2019 þar sem gert er ráð fyrir fullri fjármögnun á hönnun og undirbúningi útboðs á meðferðarkjarna og sömuleiðis til framkvæmda sem tengjast byggingu rannsóknahússins.

Það sem hv. þingmaður spyr um varðandi sjúkrahótelið er núna á lokametrunum, skipun starfshóps sem á að fara yfir rekstrarfyrirkomulag, möguleika þess starfs sem sjúkrahótelið hýsir og áhrif þess á Landspítalann. Sú vinna er að hefjast. Ég vil ekki gefa mér neitt fyrir fram um það hver komi til með að reka sjálft húsnæðið en það er hins vegar algerlega óumdeilt að Landspítalinn (Forseti hringir.) hlýtur að hafa mestallt um það að segja með hvaða hætti sú starfsemi sem þarna verður hýst gangi fram.