145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

nýr Landspítali.

[11:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það kemur mér ekkert á óvart þó að hv. þingmaður hafi mjög ákveðnar skoðanir á ýmsum þáttum í þessu verki. Ég ítreka þá afstöðu mína að ég vil ekkert gefa mér fyrir fram í þeim efnum sem lúta að rekstri sjúkrahótelsins. Ég tel einfaldlega að spítalanum sé margt betur gefið en að reka einhverja tiltekna starfsemi en ég vil, eins og ég segi, ekki gefa mér fyrir fram að það verði ekki og heldur ekki að það verði endilega á einhvern annan veg.

Ég vil bara leggja þetta verk upp þannig að það verði vandað til þess með hvaða hætti starfsemi sjúkrahótelsins verði og muni tengjast spítalanum. Þarna er gríðarlega mikil starfsemi að fara af stað, sérstaklega þegar tekið er tillit til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað í ýmsum sérgreinum læknisfræðinnar sem er alltaf að þéttast meira (Forseti hringir.) og meira inn á þjóðarsjúkrahúsið. Því er afar áríðandi að starfsemi sem þarna á að fara fram verði mjög vel skipulögð og þá til lengri tíma en eins eða þriggja ára.