145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

landbúnaðarháskólarnir.

[11:02]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg):

Herra forseti. Það er nú þannig hjá okkur sem störfum í sveitarstjórnarmálum að við höfum það á tilfinningunni og höfum haft í svolítinn tíma að við séum í stanslausri varnarbaráttu. Við þurfum einhvern veginn að verja allar okkar fjaðrir og það tekur á samfélögin og tekur á fólkið.

Það er viðurkennt að ein besta byggðaaðgerð sem hefur verið gerð á Íslandi er þegar Háskólinn á Akureyri var stofnsettur. Hvert byggðarlag á sínar perlur og við sem erum í sveitarstjórnarmálum eigum þá ósk heitasta að þessar perlur fái að vaxa og dafna og fái ekki síst að vera í friði. Það er ein perla norður í Skagafirði sem heitir Hólar í Hjaltadal og önnur perla í Borgarfirði er Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri. Nú hafa margir tekið höndum saman og eru að vinna að góðu verkefni á Hólum í Hjaltadal, hestamenn og bændasamtök, með stuðningi þings. Það er gott og ég vænti þess að það verkefni fái áframhaldandi stuðning. En óvissan varðandi reksturinn á þessum stofnunum á Hvanneyri og Hólum er mjög nagandi. Ég átti fund í Borgarfirði í gær með íbúum á Hvanneyri og ástandið er ólíðandi.

Þess vegna vil ég beina eftirfarandi spurningu til hæstv. menntamálaráðherra: Hvenær má vænta þess að framtíð þessara stofnana, rekstrarframtíð, skýrist?