145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

RÚV-skýrslan.

[12:11]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Fyrir rétt um ári leist mér svo á þegar ég sá mannvalið sem hafði tekið við sem millistjórnendur hjá Ríkisútvarpinu ásamt nýjum útvarpsstjóra að framtíð þessarar stofnunar væri nokkuð björt, þarna væri kominn mannskapur sem hefði burði, þekkingu og getu til þess að endurskilgreina hlutverk sitt, mæta nýjum áskorunum og nýjum tímum. Mér fannst á þeim tímapunkti sem hæstv. menntamálaráðherra hefði staðið sig vel. Áhyggjur mínar af því að breytt skipan í stjórn stofnunarinnar leiddi til pólitískra afskipta höfðu þá reynst óþarfar, a.m.k. eftir því sem mér sýndist, þannig að það horfði til nokkuð góðra hluta svo því sé vel til haga haldið hér.

Nú finnst mér nauðsynlegt að segja í þessum sal að ég er ekki ánægður með störf hæstv. menntamálaráðherra. Hann þarf að fá að heyra það líka í þessum sal að úti í samfélaginu er ekki mikil ánægja með störf hans varðandi Ríkisútvarpið. Það er vegna þeirrar atburðarásar sem við höfum orðið vitni að gagnvart stofnuninni á undanförnu ári, fyrst í farsanum sem einkenndi fjárveitingar hér á síðasta vetrarþingi í aðdraganda jóla og nú síðast með þeirri skýrslu sem leidd var af innanbúðarmanni í Sjálfstæðisflokknum, Eyþóri Arnalds. Það er ekki hægt, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherra ítreki hér við okkur að ekki megi ræða manninn, eða fara í manninn eins og sagt er, þegar svo klárlega er illa staðið að mannvali í nefndina. Ég er að minnsta kosti ekki tilbúinn til þess að láta innanbúðarmann í Sjálfstæðisflokknum ramma inn fyrir mig umræðuna um Ríkisútvarpið. Af hverju kemur hæstv. ráðherra ekki bara hérna (Forseti hringir.) inn með hugmyndir sínar um framtíðina og við ræðum það hvernig hann vill sjá þessa stofnun? Tökum pólitíska umræðu um það í þinginu. Ég skal taka þátt í henni en ég ætla ekki að láta ramma það inn fyrir mig af innanbúðarmanni í Sjálfstæðisflokknum hvernig ég tala um þessi mál í pólitíkinni.