145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

bygging íbúða á Hlíðarendasvæðinu.

[15:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Innanríkisráðuneytið tekur auðvitað ákvarðanir á grundvelli raka um flugöryggi. Það er ekki búið að ljúka meðferð þessa máls í innanríkisráðuneytinu.

Braut 0624, sem er kölluð þriðja braut eða neyðarbraut, það skiptir ekki máli hvað hún er kölluð í almennri umræðu, er hluti af Reykjavíkurflugvelli og þar til ákvörðun hefur verið tekin um að hún verði tekin úr notkun er hún hluti af Reykjavíkurflugvelli. Ef sú ákvörðun yrði tekin þyrfti aftur að fara í mat á því hvort öryggi á flugvellinum væri fullnægjandi. Áður en menn fara að taka ákvarðanir sem gætu orðið til þess að innanlandsflugið yrði hornreka hér í landinu þannig að menn vissu ekki hvernig ætti að skipuleggja það til framtíðar þá eiga þeir að horfa á málið frá öllum hliðum.

Mín ábyrgð sem innanríkisráðherra er gagnvart flugi í landinu. Hún er ekki gagnvart byggingu íbúða í Reykjavík þó að ég hafi mikinn skilning á því að það þurfi að byggja íbúðir í Reykjavík, mikinn skilning á því. Ábyrgðin sem (Forseti hringir.) hvílir á innanríkisráðherra snýr að flugöryggi.