145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

íslensk tunga í stafrænum heimi.

[16:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Íslensk tunga er verðmæti í sjálfu sér og það er mikilvægt að standa vörð um hana, styrkja hana og styðja hana, þó ekki sé nema bara vegna þess að hún er einstök, hún er tungumál sem er töluð af tiltölulega fámennri þjóð og hefur óvenjulega sterk tengsl við sögu en er um leið óvenjulega kröftugur miðill í samtímanum. Við hugsum á íslensku og rökræðum á íslensku og íslenskan er lykill okkar að lýðræðislegri þátttöku. Við eigum snerrur á íslensku, við rífumst á henni, við komumst að niðurstöðu með henni, við komumst meira að segja að sögulegum sáttum stundum, en það allt saman gerum við í gegnum þetta ótrúlega dýrmæta verkfæri sem íslenskan er. Íslenskan er grundvöllur lýðræðisþátttökunnar.

Þess vegna verðum við að horfa til þess að ef staðan er orðin sú að börn á Íslandi sem eiga íslensku að móðurmáli og sínu fyrsta máli búa við þá stöðu að íslenskan er ekki fyrir hendi í þeirra daglega lífi í öllum geirum daglega lífsins, þ.e. þegar sífellt stækkandi kafli daglega lífsins getur ekki farið fram á íslensku, þá erum við í raun og veru að taka sneið úr möguleikum þeirra til að beita, nota og njóta íslenskunnar sem tækis í öllum þessum daglegu störfum. Grundvallaratriðið númer eitt er að við höfum sterkar forsendur fyrir öflugri máltöku á íslensku og það gerum við með því að fara í auknum mæli inn í stafræna umhverfið.

En það er rétt sem hér hefur komið fram að ef við missum fótanna í þessari veiku stöðu íslenskunnar þá verður ekki aftur snúið. Þess vegna fagna ég því að hér eru þverpólitískar raddir uppi um það að við verðum að bregðast við. En það dugar ekki að horfa bara á íslenskuna og hinn stafræna heim heldur þurfum við ekkert síður að horfa á sterkt ríkisútvarp, sterka möguleika til útgáfu, þýðinga, rannsókna og leikhúss á íslensku. Það er líka daglega lífið, það er fjölmiðlarnir og allt það sem við njótum frá degi til dags (Forseti hringir.) en stafræn þróun íslenskunnar skiptir miklu máli. Þar eigum við sterka og flotta fræðimenn. Þeir þurfa að fá stuðning og eiga hann skilinn hér frá Alþingi.