145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

fyrirframgreiðslur námslána.

310. mál
[18:19]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Virðulegi forseti. Allir Íslendingar hafa stjórnarskrárvarinn rétt til að stunda nám, en þessi réttindi duga skammt ef tækifærin standa ekki til boða. Til að geta stundað nám í háskóla þarf fjármagn til að geta aflað sér nauðsynlegra gagna eins og bóka en aðallega til að geta séð fyrir sér og eiga fyrir fæði, húsnæði og öðru uppihaldi. Lánasjóður íslenskra námsmanna var settur á fót til að jafna tækifærin, en til þess að fá lán þarf að uppfylla ströng skilyrði sem ekki allir gera. Í ofanálag þurfa flestir námsmenn að leita á náðir banka til að fá fyrirframgreiðslu á svimandi háum vöxtum.

Er hægt að tala um réttindi þegar svona lítið er gert til að skapa jöfn tækifæri? Erum við raunverulega frjáls ef við höfum ekki öll sömu tækifæri til að nýta okkur þessi stjórnarskrárvörðu réttindi?