145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins.

323. mál
[18:29]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni og öðrum hv. þingmönnum fyrir umræðuna um málið.

Hvað varðar þá stöðu sem hefur komið upp, ef nefndin hefur verið um einhverja hríð umboðslaus, þá deili ég því með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það er auðvitað áhyggjuefni. Þó skal á það minnt að önnur félög, t.d. Mjólkursamsalan, halda uppi mjög stífri fræðslustarfsemi, áróðri, ef svo má að orði komast, um mikilvægi þess að neyta mjólkurdrykkja og eins að mjólkurvörur séu aðgengilegar, sérstaklega einmitt fyrir börn. Ég tel að þannig hafi ekki orðið neitt lát á þeim áróðri þó að eitthvað hafi dregist að endurskipa nefndina. En það er sjálfsagt að hafa vaðið fyrir neðan sig og taka enga áhættu í þessum málum og tryggja að nefndin sé að sjálfsögðu með fullt umboð.

Ég vil nota þetta tækifæri til að víkja að öðru máli þessu þó nokkuð tengdu (ÖS: Við viljum fá Guðna til baka.) sem snýr að því að tryggja hér menntunartækifæri mjólkurfræðinga. Eins og rætt hefur verið um í þingsalnum hefur orðið breyting á möguleikum Íslendinga varðandi nám í Danmörku á því sviði og við höfum rætt það hér áður. Ég hef átt samtöl við forustumenn úr mjólkuriðnaðinum, og af því að hér var kallað að við vildum fá Guðna Ágústsson aftur, þá hef ég átt samtal við hann og fleiri um áhyggjur mínar af því að þrengst hafi um menntunarmöguleika þeirra sem vilja sækja sér sérfræðinám á þessu sviði, m.a. vegna breytinga sem hafa orðið hjá dönskum menntamálayfirvöldum. Ég tel nauðsynlegt að það samtal haldi áfram og vænti þess og vona að greinin styðji vel við þá (Forseti hringir.) sem vilja mennta sig á þessu sviði, styðji við þá einstaklinga með fjárhagslegum hætti þannig að sem flestir eigi tök á því að afla sér menntunar í því spennandi fagi.